Hreinsistöð fráveitu við Klettagarða er nú óstarfhæf og fer óhreinsað skólp í sjó. Ástæðan er gríðarlegt magn af blautklútum, til að mynda sótthreinsiklútum, í fráveitukerfinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum.
„Svo virðist sem magn slíkra klúta, sem hent er í salerni, hafi aukist margfalt undanfarna daga og hefur það skapað mikið álag á allan búnað hreinsistöðva og starfsfólk,“ segir í tilkynningunni.
Nú sé svo komið að stöðva þurfti dælur og verið sé að hreinsa þær og annan búnað stöðvarinnar. „Við hvetjum fólk til að nota ekki klósettin sem ruslafötur. Blautklútar, hvort sem þeir eru notaðir á andlit og líkama eða til þrifa og sótthreinsunar, eiga heima í ruslinu.“
Skapar mikið álag á allan búnað hreinsistöðva og starfsfólk
Fyrirtækið sá ástæðu til að vekja athygli á málinu síðastliðinn föstudag.
„Gríðarlegt magn af rusli berst nú í hreinsistöðvar fráveitu Veitna í Klettagörðum og í Ánanaustum. Svo virðist sem magn blautklúta, sem hent er í salerni, hafi aukist margfalt undanfarna daga og skapar það mikið álag á allan búnað hreinsistöðva og starfsfólk.
Mikil vinna og kostnaður felst í því að hreinsa dælur og farga ruslinu og þegar álag er mikið aukast líkur á bilunum í búnaði með tilheyrandi afleiðingum,“ stóð í tilkynningu fyrirtækisins fyrir helgi.