Ríkissaksóknari gaf í dag út sérstök fyrirmæli til lögreglustjóra landsins vegna þeirra opinberu sóttvarnaráðstafana sem gripið hefur verið til vegna heimsfaraldurs COVID-19. Samkvæmt fyrirmælunum er heimilt að sekta einstaklinga og fyrirtæki um allt að 500 þúsund krónur fyrir brot gegn sóttvarnaráðstöfunum; sóttkví, einangrun og samkomubanni.
Í fyrirmælum Sigríðar J. Friðjónsdóttur ríkissaksóknara segir að lögð sé áhersla á að ákærendur meti hvert tilvik fyrir sig og ákvarði sektarfjárhæðir með hliðsjón af alvarleika brots. Lögreglustjórar eru einnig beðnir um að senda upplýsingar um öll þau mál sem upp koma, verði þau einhver, til embættis ríkissaksóknara til að tryggja yfirsýn og samræmi í afgreiðslum lögreglustjóra.
Við vinnslu fyrirmælanna hefur meðal annars verið litið til þess hvernig ríkissaksóknaraembætti á Norðurlöndunum hafa brugðist við þeim aðstæðum sem skapast hafa vegna COVID-19, samkvæmt tilkynningu ríkissaksóknara.
Allt að 250 þúsund króna sekt fyrir að brjóta gegn skyldum um sóttkví
„Við erum að fá allt of mikið af tilkynningum um fólk í sóttkví sem er að fara í verslanir,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, á blaðamannafundi í dag. Þessi háttsemi brýtur gegn gildandi reglum um sóttkví og hægt er að sekta fólk fyrir slíkt athæfi um á bilinu 50-250 þúsund krónur, en sektarupphæðin skal ákvarðast eftir alvarleika brots.
Enn hærri sektir liggja við því að brjóta gegn reglum um einangrun, en gerist fólk sekt um slíkt gætu sektir orðið á bilinu 150-500 þúsund krónur. Ríkissaksóknari segir að í sumum tilvikum gæti slík háttsemi verið það alvarleg að fyrir bæri að refsa samkvæmt ákvæðum hegningarlaga.
„Sem dæmi má nefna að sakborningur geri nokkurn hóp manna útsettan fyrir sýkingu eða sýki hóp manna af COVID-19 og enn alvarlegra ef um er að ræða að útsetja eða sýkja þá sem eru í sérstakri hættu vegna undirliggjandi sjúkdóma,“ segir í fyrirmælum ríkissaksóknara, sem bætir að ef eitthvað í þessa líkingu komi upp beri lögreglustjórum að láta bæði ríkissaksóknara og héraðssaksóknara vita.
Fimmtíu þúsund króna sekt fyrir að taka þátt í of fjölmennri samkomu
Sé brotið gegn gildandi reglum um fjöldasamkomur, segir ríkissaksóknari, er heimilt að sekta hvern og einn einstakling sem sækir samkomuna um 50 þúsund krónur. Þá er heimilt að sekta þann sem er í forsvari fyrir eða skipuleggur samkomuna um 250-500 þúsund krónur.
Þá getur sekt fyrir að brjóta gegn reglum um lokun samkomustaða eða starfsemi vegna sérstakrar smithættu numið á bilinu 100-500 þúsund krónum, samkvæmt fyrirmælum ríkislögreglustjóra.
Í tilkynningu frá ríkissaksóknara segir að mjög mikilvægt sé að það sé alveg skýrt til hvaða úrræða lögregla geti gripið ef farið er gegn reglum um sóttvarnaráðstafanir.
Enn sem komið er hafi tilkynningar til lögreglu vegna brota gegn sóttvarnaráðstöfunum verið fáar, sem sé til marks um samstöðu í samfélaginu um þýðingu og mikilvægi þessara aðgerða.