„Það er ekki verið að fara að greiða arð út úr Bláa lóninu á þessu ári. Það segir sig nú bara alveg sjálft og væri algjörlega óábyrgt.“ Þetta sagði Grímur Sæmundsen, forstjóri og stærsti eigandi Bláa lónsins, í viðtali við Morgunútvarp RÚV í morgun.
Hann sagði það alveg sjálfsagt að setja kröfur á þau fyrirtæki sem nýttu sér þær leiðir stjórnvalda sem settar hafa verið fram til að komast í gegnum yfirstandandi stöðu, og munu kosta skattgreiðendur tugi ef ekki hundruð milljarða króna, að þau greiddu sér ekki út arð. „Það væri óeðlilegt að gera það ekki. Það væri algjörlega óábyrgt og ekki í samræmi við siðferði ef menn væru að nýta brúarlán og gjalddagafrestanir og annað en færu svo að borga sér arð. Það er fráleitt hugsun í mínum huga.“
Hann sagði að hlutabótaúrræðið, sem Bláa lónið hefur þegar nýtt sér fyrir 400 starfsmenn, yrði eina úrræðið sem fyrirtækið myndi nýta sér af þeim leiðum sem stjórnvöld hafa kynnt.
„Þetta er ótrúlega fordæmalaus staða sem við stöndum frammi fyrir. Fyrirtækið er tekjulaust. Það verður tekjulaust út apríl og það verður sennilega tekjulítið eða -laust í maí, að minnsta kosti. Það er auðvitað ástæða þess að við gripum til þessa aðgerða.“
Grímur sagði að sú sviðsmynd sem Bláa lónið væri að vinna með væri í takti við dekkri sviðsmynd Seðlabankans. Miðað við hana væri fyrirliggjandi að tekjur Bláa lónsins yrðu 50 prósent lægri í ár en gert var ráð fyrir, en fyrirtækið var með 17,5 milljarða króna í tekjur í fyrra. Samkvæmt þeirri sviðsmynd munu tekjurnar dragast saman um hátt í níu milljarða króna í ár. „Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að það sem við erum að gera núna er að við erum að búa í haginn fyrir að vera starfshæf út þetta ár.“ Í því felist að sinna viðhaldi og viðskiptaþróunarverkefnum og halda áfram stafrænni þróun í fyrirtækinu. Og vakta sölu- og markaðsmál.
Um 65 prósent af arðgreiðslunni fór til samfélagsins
Rekstur Bláa lónsins hefur gengið afar vel síðustu ár. Á aðalfundi Bláa lónsins í fyrra var samþykkt að greiða út um 30 milljónir evra, þá alls tæplega 4,3 milljarða króna, í arðgreiðslu vegna frammistöðu ársins 2018. Það var næstum því tvöfalt hærri greiðsla en var greidd út árið 2018 í arð, þegar slík greiðsla nam 16 milljónum evra, eða tæplega 2,3 milljarðar króna á núvirði.
Mikil umræða hefur verið um það undanfarið hvort að það sé eðlilegt að fyrirtæki með mjög sterka eiginfjárstöðu, sem hafa greitt sér háar arðgreiðslur á undanförnum árum, séu að nýta sér leiðir stjórnvalda strax. Grímur sagði að það væri eðlilegt að þessara spurninga væri spurt. Hann sagði að hlutabótaleiðin væri góð leið og að ef ekki hefði verið gripið til hennar hefðu einfaldlega verið meiri uppsagnir hjá Bláa lóninu. „Kjarninn er þessi að við erum að reyna að verja þessi 600 störf.“ Þorri þeirra 400 sem samið hafa um að fara á hlutabótaleiðina fara í 25 prósent starfshlutfall, sem er það lægsta sem atvinnurekandi má setja starfsmann í samkvæmt skilyrðum hennar.
Grímur sagði að arðgreiðslan sem greidd hafi verið út í fyrra hefði verið vegna rekstrarársins 2018, sem hafi verið frábært rekstrarár. Af þeim rúmu fjórum milljörðum króna sem greiddir voru í arð hafi um einn milljarður króna farið í fjármagnstekjuskatt til ríkissjóðs og af því var greitt í arð til hluthafa þá hafi óbeint um helmingur af þeirri upphæð til almennings í gegnum lífeyrissjóðina, sem eiga tæpan helming í fyrirtækinu. „Það má segja að 65 prósent af þessari arðgreiðslu hafi farið til samfélagsins.“
Erfið staða á helstu mörkuðum
Um 98 prósent viðskiptavina Bláa lónsins eru erlendir ferðamenn. Grímur sagði það ljóst að erfiðir tímar séu framundan, jafnvel þótt að Íslandi gangi mjög vel að takast á við útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19. Erlendu markaðirnir sem viðskiptavinirnir kæmu frá væru í miklum vandræðum. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefði til að mynda greint frá framlengdu samkomubanni þar í landi í gær og frá Bretlandi bærust þau skilaboð að íbúar þar ættu að búa sig undir að baráttan yrði sex mánaða ferli.
Var metið á 50 milljarða
Stærsti eigandi félagsins er Hvatning slhf. með eignarhlut upp á 39,1 prósent. Eigandi þess er Kólfur ehf., eignarhaldsfélag að stærstu leyti í eigu Gríms og Eðvard Júlíussonar. Kólfur keypti tæplega helming í Hvatningu af Horni II, framtakssjóði í stýringu Landsbréfa, árið 2018.
Næst stærsti eigandinn er Blávarmi slhf., félag í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða, sem keypti 30 prósent hlut HS Orku í Bláa lóninu á tæplega fimmföldu bókfærðu virði hlutarins í maí síðastliðnum, eða á 15 milljarða króna.
Salan á hlutnum í Bláa Lóninu fór fram eftir að Jarðvarmi slhf., félag í eigu sömu lífeyrissjóða, hafði eignast allt hlutafé í HS Orku skömmu áður. Miðað við þessi viðskipti þá var Bláa lónið metið í heild sinni á 50 milljarða króna.
Þriðji stærsti eigandinn með 8,7 prósent hlut er Keila ehf., en stærsti eigandi þess er áðurnefnd Hvatning.
Fjórðu og fimmtu stærstu hluthafarnir er félögin Hofgarðar ehf. og Saffron ehf. með sitt hvorn 6,2 prósent eignarhlut. Hofgarðar er eignarhaldsfélag í eigu Helga Magnússonar, aðaleiganda fjölmiðlafyrirtækisins Torgs, en Helgi er einnig stjórnarformaður Bláa lónsins.
Saffron er í eigu Sigurðar Arngrímssonar, sem á líka hluti í Torgi.
Bogmaðurinn ehf., félag í eigu Ágústu Johnson er einnig á meðal stærstu eigenda með 2,4 prósent eignarhlut. Ágústa er eiginkona Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra.