Aðalfundur Brims samþykkti í gær að halda arðgreiðsluáformum félagsins til streitu og greiða út alls 1,9 milljarða króna í arð 30. apríl næstkomandi, vegna frammistöðu síðasta árs.
Á sama fundi var tillaga um heimild stjórnar til að kaupa eigin bréf samþykkt. Sú heimild stendur í 18 mánuði og takmarkast við að Brim má ekki halda á meira en tíu prósent í sjálfu sér á hverjum tíma. Þá má kaupgengi „eigi vera hærra en í síðustu óháðu viðskiptum eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboð í þeim viðskiptakerfum þar sem viðskipti með hlutina fara fram, hvort sem hærra er.
Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar Íslands.
Kosning til stjórnar félagsins fór einnig fram, en sex höfðu boðið sig fram í fimm laus sæti. Þar vakti mesta Guðmundur Kristjánsson, forstjóri og stærsti eigandi Brims, vild setjast aftur í stjórn félagsins, en auk hans bauð öll fyrrverandi stjórn félagsins sig áfram til setu.
Brim er einnig á meðal þeirra fyrirtækja sem heilbrigðisráðherra hefur skilgreint sem þjóðhagslega mikilvægt og veitt undanþágu frá samkomubanni.
Miklar sviptingar á fáum árum
Miklar sviptingar hafa verið innan Brims síðastliðinn tæp tvö ár, eða frá því að tilkynnt var að félag sem í dag heitir Útgerðarfélag Reykjavíkur hefði keypt rúmlega þriðjungshlut í félaginu, sem þá hét HB Grandi en var síðar var breytt í Brim, fyrir 21,7 milljarða króna.
Fljótlega eftir þetta var Vilhjálmur Vilhjálmsson, sem hafði verið farsæll forstjóri félagsins um árabil, rekinn úr starfi og tók Guðmundur við stjórnartaumunum sem forstjóri.
Þetta olli deilum í stjórn félagsins og töldu tveir stjórnarmenn félagsins, Rannveig Rist, forstjóri álvers Rio Tinto Alcan í Straumsvík, og Anna G. Sverrisdóttir, ekki rétt að fara út í þessar aðgerðir.
Síðan hafa deilur á meðal hluthafa félagsins verið nokkuð tíðar, meðal annars út af viðskiptum sem Brim hefur átt um kaup á eignum annarra félaga þar sem Guðmundur er aðaleigandi. Gildi lífeyrissjóður seldi til að mynda alla hluti sína í Brim eftir slíkar deilur í fyrra.
Útgerðarfélag Reykjavíkur, í meirihlutaeigu Guðmundar Kristjánssonar, og dótturfélag þess á um 46 prósent eignarhlut í Brimi í dag.