Vaktaálagsauki sem hjúkrunarfræðingar á Landspítala hafa fengið vegna tilraunaverkefnis spítalans verður framlengdur til næstu mánaða og nauðsynlegar fjárveitingar tryggðar. Þetta kemur fram í bréfi sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hafa sent forstjóra Landspítala vegna málsins.
Íslenskir hjúkrunarfræðingar, sem hafa staðið í eldlínu faraldursins síðustu vikur og starfað undir gríðarlegu álagi, vöknuðu upp við vondan draum um mánaðamótin er sérstakrar álagsgreiðslu til þeirra var hætt. Eru dæmi um að laun þeirra hafi lækkað um 40 þúsund við þetta.
Engar sérstakar greiðslur vegna álags á Landspítalanum í yfirstandandi faraldri hafa verið tilkynntar, en slíkar hafa til að mynda verið teknar upp í Svíþjóð.
Þar er haft eftir Bjarna Benediktssyni að ríkisstjórnin ætli að gera grundvallarbreytingar í þeim samningum sem séu í farvatninu við hjúkrunarfræðinga á vaktavinnufyrirkomulaginu. „Vonandi hjálpar framlenging á greiðslum fyrir álag vegna vakta til að ljúka kjaraviðræðum samninganefndar ríkisins og hjúkrunarfræðinga farsællega. Ég vil trúa því."
Svandís Svavarsdóttir segir að þegar horft sé til þeirra alvarlegu aðstæðna sem nú séu uppi í heilbrigðiskerfinu vegna COVID-19, þar sem álag á heilbrigðisstéttir sé meira en nokkru sinni, telji hún „augljóst að ráðstafanir sem skerða kjör hjúkrunarfræðinga eru fráleitar".