Fimm staðfest andlát eru nú hér á landi vegna COVID-19 sjúkdómsins eftir að karlmaður á sjötugsaldri lést af völdum hans í gærkvöldi.
Þetta hefur Kjarninn fengið staðfest hjá Landsspítalanum.
Sá sem lést hét Sigurður H. Sverrisson og var fæddur árið 1953. Hann var því 67 ára þegar hann lést. Eiginkona hans hafði látist í mars síðastliðnum.
Bróðir mannsins birti til tilkynningu um andlát hans á Facebook í gær. Þar skrifaði hann: „Það er með mikilli sorg í hjarta sem við í dag kveðjum ástkæran bróður. Það gerist núna svo skömmu eftir að við kvöddum okkar elsku mágkonu. Betri vini og félaga hef ég ekki getað hugsað mér. Megið þið hvíla í friði elsku Siggi bróðir og Mary Pat. Ykkar verður sárt saknað.“
Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum er fjöldi inniliggjandi sjúklinga með staðfest COVID-19 smit núna 36. Frá upphafi faraldursins hafa 80 þurft á innlögn að halda. Á gjörgæslu eru ellefu sjúklingar með sjúkdóminn, þar af átta í öndunarvél.