Það er mögulegt að komast hjá því að önnur bylgja faraldurs fylgi í kjölfar þess sem nú gengur yfir. Hættan á annarri bylgju eykst hins vegar ef takmörkunum á samneyti fólks verður aflétt of hratt.
„Við vitum að heimsfaraldrar inflúensu koma oft í fleiri en einni bylgju,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við Kjarnann. Hann bendir á að SARS-faraldurinn, sem dreifðist til um þrjátíu landa árið 2003, hafi ekki gert það. Það gæti m.a. skýrst af því að vel tókst að einangra sýkta. „En það sem menn eru hræddir við núna er að ef fáir sýkjast á ákveðnum svæðum, í stórum hlutum samfélaga til dæmis, og margir sitja því eftir næmir, þá geti faraldur komið aftur upp. Á því er hætta nema að veiran verði útdauð, hverfi úr heiminum eða aðgerðum viðhaldið.“
Og það er vissulega ekki staðan í dag. Veiruna er líklega að finna í öllum löndum og faraldrar geisa nánast alls staðar. „Hún er alls ekki á þeim buxunum að fara að verða úti í kuldanum og deyja drottni sínum. Því hún hefur enn fullt af fólki sem hún getur sýkt.“
Nýja kórónuveiran hagar sér að mörgum leyti eins og frænka hennar sem olli SARS. Meðgöngutíminn er svipað langur og dánartíðnin gæti þegar upp verður staðið verið svipuð. Þó að flestir veikist um viku eftir smit af nýju kórónuveirunni eru margir sem fá lítil eða engin einkenni. Þess vegna er svo auðvelt fyrir hana að dreifa sér milli fólks og þess vegna eru fjarlægðarmörk sem mælt er með mikilvæg. „Og þess vegna er svo miklu erfiðara að stoppa hana af heldur en ef allir fengju augljós einkenni og ekki færi á milli mála hverjir væru sýktir og hverjir ekki,“ útskýrir Þórólfur.
Ef vel tekst til að einangra veiruna þá deyr hún út því hún þarf að komast inn í líkama fólks til að lifa af og fjölga sér. Utan líkamans lifir hún aðeins í nokkra klukkutíma eða fáeina daga við kjöraðstæður.
Raunveruleg hætta á annarri bylgju
En meðan veiran er enn að ganga víðs vegar um heiminn þá getur faraldur komið upp aftur. Á því er raunveruleg hætta. Mögulega er slíkt að gerast í Suður-Kóreu. Þar tókst vel að hemja útbreiðsluna í byrjun en nú er aðeins farið að bera á smitum á ný. „Þetta er náttúrlega það sem maður er alltaf smeykur við en veit aldrei hvernig verður,“ segir Þórólfur.
Til að áætla það hversu margir hafi raunverulega sýkst af nýju kórónuveirunni stendur fyrir dyrum að hefja mótefnamælingar meðal almennings á Íslandi seinni hlutann í apríl eða byrjun maí. „Þá veit maður betur hversu viðkvæmt samfélagið er fyrir því að hún gæti komið aftur.“
Mótefnamæling mun segja aðra sögu en sýnatökurnar
Fólk myndar ekki mótefni nema það sýkist og líklegt er að fólk hér á landi sem og annars staðar hafi sýkst án þess að vita það. Sýnatökurnar sem núna er verið að framkvæma á veirufræðideild Landspítalans og hjá Íslenskri erfðagreiningu staðfesta aðeins hvort viðkomandi er sýktur eða ekki á nákvæmlega þeim tímapunkti sem sýni er tekið, ekki hvort hann hafi einhvern tímann fengið hana og auðvitað getur þetta sama fólk átt eftir að sýkjast. „Þetta eru tvær ólíkar nálganir sem segja okkur mismunandi hluti.“
Þórólfur segir að mótefnamælingu þurfi að hefja á réttum tíma. Hann vill sjá sýkingar ganga vel niður áður en að farið verður af stað. „Þetta verður eitt af okkar hjálpartækjum sem við getum stuðst við til að taka ákvarðanir um hvenær og hvernig sé best að snúa ofan af þeim aðgerðum sem eru í gangi.“
Bóluefni ekki svar við faraldrinum
Fréttir berast reglulega af því að þróun bóluefnis gegn veirunni sé hafin og bjartsýnustu menn vonast til að hægt verði að hefja notkun þess fyrir árslok.
Þórólfur er ekki í þeim hópi. „Reynslan segir okkur að þegar menn telja sig vera komna með bóluefni þá á eftir að rannsaka það gaumgæfilega, bæði hvort að það virki og verndi og líka hvort að það sé öruggt. Það þarf að prófa það á ýmsum hópum fólks, líka börnum. Því ekki fara menn að bólusetja heilu þjóðirnar nema að vita hvort að efnið er öruggt. Þá gæti komið í ljós aukaverkun og fleiri farið illa út úr bólusetningunni en ef þeir hefðu veikst af veirunni.“
Þórólfur segir ekki hægt að flýta þróunarferlinu svo nokkru nemi. „Í mínum huga er bóluefni ekki neitt svar við þessum faraldri. Auðvitað vonast ég til að ég hafi rangt fyrir mér í því en þannig hefur það verið með öll bóluefni sem ég man eftir.“
En ef bóluefni er ekki í augsýn á næstunni, hvernig mun þessum faraldri þá ljúka?
„Veirur eru þannig að þær byrja að sýkja og í byrjun eru allir móttækilegir,“ útskýrir Þórólfur. „Eftir því sem þær sýkja fleiri og fólk fer að mynda mótefni þá kemst veiran ekkert áfram nema að hún hitti fyrir einhvern sem enn hefur ekki veikst. Og eftir því sem það veikjast fleiri og mótstaðan í samfélaginu verður meiri stoppar faraldurinn.“
Þetta þýði þó ekki endilega það að ákveðið hlutfall þjóðar eða samfélags þurfi að sýkjast svo að faraldri ljúki.
Þórólfur bendir á að í faraldsfræðum sé talað um svokallaða útbreiðslutölu, R. Hún segir til um hvað hver einstaklingur smitar marga. „Allar þessar aðgerðir sem hefur verið gripið til; einangrun, sóttkví, samkomutakmarkanir, tveggja metra nándarmörk og fleira, allt þetta miðar að því að lækka R-töluna þannig að hver og einn einstaklingur sýki miklu færri. Þannig vonumst við til að faraldurinn deyi smá saman út og miklu fyrr en hann myndi annars gera.“
Ef okkur tekst vel til í okkar aðgerðum og náum að lágmarka útbreiðsluna, verða þá ferðalög milli landa helsta áskorunin?
„Já, ef það verður ekki mikil útbreiðsla hér af veirunni og sýkingarnar hætta að gera vart við sig og ekki margir eru veikjast, þá verður það klárlega áskorun að fólk sé ekki að fara um allan heim. Eins það að koma í veg fyrir að hingað til lands komi fólk með veiruna.“
Sóttkví mögulega beitt á alla sem koma til landsins
Því kemur að sögn Þórólfs til greina að beita sóttkví áfram á þá sem koma til landsins, ekki aðeins á fólk sem er búsett hér heldur einnig ferðamenn. „Það gæti líka komið til greina að krefjast þess að einstaklingar sem koma hingað sýni fram á það með einhvers konar vottorði að þeir séu með mótefni gegn veirunni,“ bendir hann á. „Það er líka möguleiki að Íslendingar sem ekki hafi mótefni verði hvattir til að ferðast ekki til útlanda fyrr en að veiran verður útdauð úr heiminum eða að bóluefni verður fáanlegt.“
Aðgerðir sem þessar geta valdið áframhaldandi raski á efnahags- og atvinnulífi sem og daglegum venjum fólks. „Það verður áskorun fyrir okkur öll að takast á við það.“
Eftir 4. maí stendur til að aflétta samkomubanni og öðrum takmörkunum á samneyti fólks – en í áföngum. „Það verður alls ekki þannig að þann dag verði allar takmarkanir teknar af og við getum bara haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist,“ segir Þórólfur með áherslu. Nákvæmlega hvernig takmörkunum verður aflétt og hversu langan tíma það mun taka er svo stóra spurningin. „Það veit það enginn nákvæmlega hvernig á að gera þetta, það er engin uppskrift til. En við munum reyna að útfæra þetta á skynsaman máta en þó þannig að við þurfum að vera tilbúin að bakka og herða aftur tökin ef það er útlit fyrir að veiran ætli að blossa upp aftur.“
Hvenær sérðu fyrir þér að við getum aftur farið til útlanda áhyggjulaus og dansa þétt saman fyrir framan sviðið á stórtónleikum?
„Ég veit það ekki, það er algjörlega ómögulegt að segja til um það,“ svarar Þórólfur. „Það sem ég get sagt er að þegar við förum að slaka á takmörkunum þá verður aðalmálið áfram að fólk þarf að passa sig. Það þurfa allir að gæta áfram hreinlætis, þvo sér vel um hendurnar, vera ekki í tengslum innan um annað fólk þar sem smithætta getur skapast. Þó að atvinnulífið fari af stað og að stærri samkomur verði leyfðar þá þurfum við enn öll að passa okkur. En hversu vel og lengi menn munu þurfa að fylgja því er erfitt að segja.“
Hik við að heilsa með handabandi
Honum kæmi ekki á óvart ef fólk yrði hikandi við það að heilsast með handabandi eftir að faraldurinn verður um garð genginn. „Til skemmri tíma mun þetta breyta því hvernig fólk á í samskiptum. Ég veit ekki hvað gerist svo, það verður einhver bið á því að fólk hoppi í gamla góða farið. En menn eru hins vegar fljótir að gleyma. Hvort það líði einhver ár þar til samskipti okkar verða komin í samt horf, ég þori ekki að segja til um það.“
Margt hefur komið sóttvarnalækni á óvart í sambandi við nýju kórónuveiruna, bæði hvað varðar eðli sýkingarinnar og ekki síður varðandi eðli okkar mannfólksins.
„Það hefur komið mér á óvart hversu smitandi veiran er. Svo hefur það komið mér líka á óvart hvað hún getur verið skæð. Flestir veikjast vægt en hún getur farið mjög illa með suma og það er ekki vitað af hverju. Það hefur líka komið mér á óvart hversu hratt almenningur fór að fylgja leiðbeiningum og hoppa á vagninn með okkur gert það sem gera þarf. Það hefur komið mér gríðarlega á óvart að Íslendingar sem fara varla eftir neinum reglum, hafi gert það,“ segir Þórólfur léttur í bragði. „Ég fer út í búð og þar eru allir með fjarlægðarmörkin alveg á hreinu og taka þetta mjög alvarlega.“
Samstaðan gefur aukið þrek
Sóttvarnalæknir ber ábyrgð á viðbúnaði gegn vá, meðal annars að völdum smitsjúkdóma. Það er ekki lítið hlutverk. Og mikið mæðir óneitanlega á Þórólfi þessar vikurnar.
Hvernig hefur þú það Þórólfur, hvernig eru vinnudagarnir þínir?
„Vinnudagarnir hjá mér eru þungir. Þeir byrja snemma á morgnana og standa langt fram á kvöld. Það er mikið að gera, alveg stöðugt. Ég er búinn að vinna alla daga vikunnar frá því í lok janúar. Það eru góðir dagar og svo eru verri dagar. Sumir eru ánægjulegri en aðrir, sérstaklega þegar maður sér árangur og sér að það sem maður hefur verið að segja er að ganga eftir. Það gefur mér ákveðna lífsfyllingu. Það er líka svo ánægjulegt að sjá hvað allir eru samstilltir; allt starfsfólkið hér hjá embætti landlæknis, almannavarnir, heilbrigðiskerfið, ríkisstjórnin, almenningur, fyrirtæki. Það eru allir með. Það gefur manni aukið þrek. En maður sér ekki mikið af fjölskyldunni sinni þessa dagana, ég viðurkenni það.“
Hvað gerir þú til að hlaða batteríin?
„Ég á mörg áhugamál en ég hef ekki haft tíma til að sinna þeim. Ég verð að gefa mér tíma í þau seinna meir.“
Ertu með einhverja hugmynd um hvað þig langar að gera þegar þetta verður allt afstaðið?
„Já, já, já,“ svarar Þórólfur strax. „Þá ætla ég að fara í gamla góða farið mitt. Hitta fjölskylduna, hitta vinina, spila með strákunum, ferðast með fjölskyldunni innanlands – taka upp þráðinn í öllu því sem var svo gaman.“
Þannig að við getum ferðast innanlands í sumar?
„Já, það held ég nú,“ svarar Þórólfur en varfærnislega þó. „Nóg er af víðernunum að minnsta kosti. Við getum öll farið inn á hálendi og haft það kósí án þess að tjalda nálægt nokkrum öðrum manni.“
Hafir þú, lesandi góður, velt fyrir þér hverjir „strákarnir“ eru sem Þórólfur hlakkar til að spila með á ný, þá er svarið að finna í myndbandinu hér að neðan.
Penny Lane - æfing 24.7.17Rennt í Penny Lane á æfingu.
Posted by Bítilbræður on Friday, July 28, 2017