Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að Seðlabankinn yrði „mjög brúnaþungur“ ef sú staða kæmi upp síðar á árinu að Arion banki myndi greiða hluthöfum sínum út arð. „Það væri algjörlega ótækt af bankanum að íhuga slíkar arðgreiðslur við þessar aðstæður, þar sem verið er að veita bönkunum tilslakanir, og hið sama gildir um kaup á eigin bréfum.“
Þetta kemur fram í viðtali við Ásgeir sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Þar segist hann hyggja að eigendur og stjórnendur Arion banka skilji þessa stöðu mjög vel.
Þær tilslakanir sem Ásgeir vísar til snúast um að á skömmum tíma hefur bindiskylda verið lækkun niður í núll og sveiflujöfnunarauki sem lagðist á eigið fé bankanna afnumin.
Frestuðu arðgreiðslu um tvo mánuði
Arion banki hagnaðist um 1,1 milljarð króna í fyrra og arðsemi eigin fjár bankans var 0,6 prósent. Samt sem áður var lögð til tíu milljarða króna arðgreiðsla til hluthafa vegna síðasta árs. Það stendur til að greiða út nífaldan hagnað í arð. Þau áform eru í takti við yfirlýsta stefnu bankans, sem er að öllu leyti í einkaeigu og skráður á hlutabréfamarkað, að greiða út tugi milljarða króna eigin fé hans til eigenda hans.
Frá því að upphafleg ákvörðun um þá endurgreiðslu var tekin hefur staðan í efnahagslífinu gjörbreyst.
Greint var frá því að sveiflujöfnunaraukinn hefði verið afnumin 18. mars síðastliðinn. Daginn áður, 17. mars, fór fram aðalfundur Arion banka. Þar var samþykkt að fresta arðgreiðslunni til hluthafa um tvo mánuði, eða fram í miðjan maí. Auk þess var heimild stjórnar til að kaupa allt að tíu prósent af hlutafé bankans endurnýjuð. Miðað við markaðsvirði Arion banka í dag myndi það þýða að í kringum tíu milljarða króna greiðslu til eigenda bankans.
Arion banki hefur enn sem komið er ekki endurskoðað sín áform um að greiða út arð í maí. Í tilkynningu sem bankinn sendi til Kauphallar Íslands 27. mars síðastliðinn, vegna aðgerða sem hann hefur gripið til vegna COVID-19, kemur þvert á móti fram að eiginfjár- og lausafjárstaða bankans sé mjög sterk án þess að tillit sé tekið til „fyrirsjáanlegrar arðgreiðslu að fjárhæð 10 milljarða króna“.
Þar sagði enn fremur að auk ákvörðunar um að fresta arðgreiðslu í tvo mánuði myndi bankinn „ekki fara í frekari kaup á eigin bréfum fyrr en óvissa vegna heimsfaraldursins hefur minnkað.“