Bandaríska sjónvarpskonan, Ellen DeGeneres, hefur heldur betur vakið athygli vestan hafs fyrir brandara sem hún sagði í þætti sínum á dögunum sem hún birtir frá heimili sínu. Hún er eins og fjölmargir aðrir landar hennar í sóttkví en kórónuveiran hefur herjað af miklum krafti á Bandaríkin undanfarnar vikur.
Ellen sagði að það að vera í sóttkví væri eins og að vera í fangelsi. „Það er aðallega vegna þess að ég hef verið í sömu fötunum í tíu daga og allir hér inni eru samkynhneigðir,“ sagði hún en Ellen býr með eiginkonu sinni, leikkonunni Portiu de Rossi, í glæsivillu í Kaliforníu.
Mike Sington, einn stjórnenda NBCUniversal, tísti um brandara Ellenar á Twitter og má með sanni segja að hann hafi fengið misjöfn viðbrögð. Myndbandið hefur verið tekið af Youtube-reikningi Ellenar síðan gagnrýnin komst í hámæli í gær.
Ellen does her first show from home: “Being in quarantine is like being in jail. It’s mostly because I’ve been wearing the same clothes for ten days and everyone in here is gay.” pic.twitter.com/DH1ywZKAqR
— Mike Sington (@MikeSington) April 6, 2020
Gagnrýnin gekk meðal annars út á það að 27 milljóna dollara villan sem hún býr í svipaði nú ekki beint til fangelsis. Umræðan á samfélagsmiðlum beindist jafnframt að þeim starfsmönnum í Bandaríkjunum sem ekki hafa tækifæri til að vera heima í sóttkví á COVID-tímum og þurfa að vinna – og setja sig þar af leiðandi í hættu.
Ellen hefur á samfélagsmiðlum reynt að vera jákvæð í faraldrinum en í færslu á Instagram fyrir um þremur vikum sagði hún að þeir tímar sem nú standa yfir væru krefjandi en að mikilvægt væri að muna að allir væru í þessu saman. „Deilið ást, verið almennileg og haldið áfram að synda,“ skrifaði hún.
Fólkið á lægstu laununum í mestu hættunni
Starfsmenn í skyndibitaiðnaðinum hafa verið sagðir ómissandi í faraldrinum í Bandaríkjunum. Það hefur þó ekki linað áhyggjur þeirra og ótta um heilsuna. Fram hefur komið í fréttum að starfsmenn skyndibitakeðjanna McDonald's, Taco Bell og Jack in the Box hafa haft miklar áhyggjur af heilsu sinni vegna óviðunandi ráðstafana varðandi sótthreinsun og annað.
„Ég nánast baða mig í spritti,“ sagði starfsmaður McDonald's í samtali við vefmiðil Business Insider í lok mars. „Ég óttast að ég sé eins og hermaður í fremstu víglínu, dæmd til að vera fyrst í röðinni til að fara. Vegna ostahamborgara.“
Fram kemur í frétt Business Insider að skyndibitakeðjur vinni nú að því að bæta öryggisráðstafanir en mörgum starfsmönnum þeirra líði þó þannig að þeir séu enn í hættu. Fæstir hafi efni á því að taka sér leyfi frá vinnu en þeir hafa ekki rétt á því nema að þeir finni fyrir einkennum kórónuveirunnar.
Enn fremur segjast starfsmennirnir þurfa að eiga við dónalega viðskiptavini, öryggisótta og í erfiðleikum með að halda uppi fjarlægð milli fólks. Mörgum líði þannig að þeir séu neyddir til að fórna eigin heilsu og heilsu fjölskyldu þeirra fyrir lágmarkslaun.