Staðfest smit af kórónuveirunni eru orðin 1.754 hér á landi. Í gær voru þau 1.739 og hefur þeim því fjölgað um fimmtán síðasta sólarhringinn. Smitum fjölgaði einnig milli daga í gær en þar á undan hafði þeim farið fækkandi í sex sólarhringa. Nokkuð fleiri sýni voru tekin í gær heldur en dagana á undan.
Í dag eru 1.543 í sóttkví en í gær var fjöldinn 1.800. Alls hafa 17.455 lokið sóttkví.
Í dag eru 522 einstaklingar með virk COVID-19 smit en í gær var fjöldinn 587.
1.224 hafa náð bata.
Alls hafa 39.536 sýni verið tekið hér á landi frá upphafi faraldursins. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að sýni hefðu verið tekin af rúmlega 11 prósent íslensku þjóðarinnar sem væri með því mesta í heimi.
Í gær voru 360 sýni greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og reyndust þrettán þeirra jákvæð. Hjá Íslenskri erfðagreiningu voru tekin 972 sýni en aðeins tvö voru jákvæð.
Á sjúkrahúsi liggja 35 sjúklingar vegna COVID-19 sjúkdómsins, þar af sex á gjörgæslu, samkvæmt því sem fram kemur á vefnum covid.is.
Af þeim sem greinst hafa með COVID-19 á Íslandi eru níu látin.
Fyrsta smitið af kórónuveirunni greindist á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans þann 28. febrúar. Greindum smitum tók að fjölga smám saman í kjölfarið en fjöldinn tók svo stökk 16. Mars er 46 greindust. Flest smit greindust 23. mars eða 106.