„Staðan í sjávarútvegi er ekki þannig að við erum að horfa fram á altjón.“ Þetta sagði Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), í Silfrinu í dag.
Þegar fyrsti efnahagspakki stjórnvalda var í þinglegri meðferð skiluðu samtökin inn umsögn þar sem farið var þess á leit að greiðslu veiðigjalds í ár yrði frestað vegna þess efnahagsástands sem skapast hefur út af útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Áætlaðar tekjur ríkissjóðs vegna veiðigjalda í ár eru tæplega 4,9 milljarðar króna. Samtökin fóru sömuleiðis fram á að sérstök gjöld sem lögð eru á fiskeldisfyrirtæki sem stunda sjókvíaeldi verði frestað eða felld niður út árið 2021 til að veita fiskeldisfyrirtækjum meira svigrúm til að bregðast við fyrirséðum tekjusamdrætti við þær aðstæður sem nú eru uppi.
Heiðrún Lind var spurð um það í Silfrinu hvort að SFS myndi þrýsta áfram á þessar aðgerðir nú þegar næsti pakki stjórnvalda er í lokadrögum, en búist er við að hann verði kynntur snemma í næstu viku. Hún sagði að það væri ekki forgangsmál nú og að það yrði ekki þrýst á það að svo komnu máli. Það væri þó ákveðið sanngirnissjónarmið ef það væri hægt að fresta greiðslu gjaldsins um ákveðin tíma.
Ofsögum sagt að staðan sé svört í sjávarútvegi
Heiðrún Lind var líka spurð út í það hvort eðlilegt væri að sjávarútvegsfyrirtæki sem ætti tugi eða jafnvel yfir hundrað milljarða króna í eigið fé væru að nýta sér hlutabótaleið stjórnvalda, þar sem ríkissjóður greiðir hluta af launum starfsfólks. Þar hefur sérstaka athygli vakið ákvörðun Samherja og tengdra fyrirtækja að nýta sér leiðina fyrir hluta síns starfsfólks, en Samherji átti 111 milljarða króna í eigið fé í lok árs 2018 og miðað við gott árferði í sjávarútvegi í fyrra eru líkur til þess að það hafi aukist þá.
Henni finnst það þó fagnaðarefni hversu lágt hlutfall af sjávarútvegsfyrirtækjum hafi verið að nýta sér hlutabótaleiðina.
Heiðrún Lind sagði það ofsögum sagt að staðan í sjávarútvegi væri svört. Hún væri miklu svartari annars staðar, til dæmis í ferðaþjónustu. Ákveðnir þættir væru að vinna með sjávarútvegi. Það væri sveigjanleiki í greininni sem nýtist þannig að það er hægt að sækja verðmætin síðar. Auk þess gagnist mikil veiking krónunnar, sem hefur veikst um 18,7 prósent gagnvart Bandaríkjadal það sem af er ári, og hrun á heimsmarkaðsverði á olíu, sem hefur lækkað um tæp 60 prósent á þremur mánuðum, sjávarútvegi verulega.
Hagstofa Íslands birti í lok liðinnar viku tölur um útflutningsverðmæti sjávarafurða frá byrjun árs og fram að páskum, eða á fyrstu 15 vikum ársins 2020. Þar kom fram að hann væri 7,7 prósent minna en það var á sama tíma í fyrra. Alls hafði verðmætið dregist saman um 5,6 milljarða króna, úr 74 milljörðum króna í 68,4 milljarða króna.
Gáleysisleg útlán hafa verið dæmd refsiverð
Heiðrún Lind ræddi líka efnahagspakka stjórnvalda og hverju þeir hafi skilað. Hún sagðist hafa rætt við stóran fyrirtækjarekenda, sem væri ekki í útgerð en með starfsemi erlendis, sem sagði að erlendu bankarnir væru allir komnir af stað með sínar aðgerðir. Þar væri pakkarnir komnir í framkvæmd.
Hér hefði það reynst flóknara en hin svokölluðu brúarlán, þar sem ríkið ætlar að gangast í ábyrgðir fyrir lán sem bankar veita til fyrirtækja í miklum rekstrarerfiðleikum, eru enn ekki komin í framkvæmd. Samkomulag milli ríkisins og Seðlabanka Íslands um útfærslu lánanna var fyrst undirritað á föstudag.
Heiðrún Lind benti á að áhættufælni í íslensku fjármálaumhverfi væri mjög mikil á síðustu árum, sérstaklega eftir að 20 dómar hafi fallið í Hæstarétti Íslands eftir bankahrunið þar sem gáleysisleg útlán voru dæmd refsiverð. Nú spyrji fjármálakerfið hvort að bankarnir eigi að fara að taka á sig hluta af áhættu á lánum til fyrirtækja sem væru ekki gjaldfær.
Staðan væri því flókin og það þyrfti að taka tillit til annarra kröfuhafa þeirra fyrirtækja sem uppfylla skilyrði til að fá brúarlánin, sem eiga að geta verið allt að 1,2 milljarðar króna. Það verði hins vegar að fara að koma útlánum til fyrirtækja sem þurfi á þeim að halda í gang og koma fjármunum þangað sem þörf er á þeim.