Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir iðnaðarráðherra funduðu í síðustu viku með forstjóra og stjórnarformanni Landsvirkjunar og óskuðu eftir því að Landsvirkjun myndi skila stjórnvöldum mati sínu á rekstrarstöðu viðskiptavina sinna, fyrirtækja í orkufrekum iðnaði á Íslandi.
Þetta kom fram í máli Bjarna, er hann svaraði fyrirspurn frá Gunnari Braga Sveinssyni, þingmanni Miðflokksins, um stöðu mála í viðræðum Rio Tinto á Íslandi og Landsvirkjunar á Alþingi í dag.
Gunnar Bragi spurði Bjarna hvort hann hefði sem fjármálaráðherra „beitt sér“ eða tekið beinan þátt í þeim viðræðum.
Þingmaðurinn gaf í skyn að fjármálaráðherra ætti að beita sér fyrir því að Rio Tinto fengi lægra orkuverð frá Landsvirkjun eins og fyrirtækið hefur krafist, til þess að tryggja að störf og afleidd störf vegna álverksmiðjunnar í Straumsvík glatist ekki, ofan á öll önnur störf sem fyrirsjáanlega munu nú glatast á Íslandi vegna áhrif kórónuveirufaraldursins.
Bjarni sagði að hann hefði ekki „beitt sér“ gagnvart Landsvirkjun, enda væri um að ræða fyrirtæki á samkeppnismarkaði með sjálfstæða stjórn og stjórnendur sem eru sjálfstæðir í sínum störfum. Þar gætu stjórnmálamenn ekki beitt sér.
Þó sagðist ráðherra hafa átt fundi með forsvarsmönnum Rio Tinto á Íslandi til þess að heyra afstöðu þeirra í viðræðunum við Landsvirkjun, en Rio Tinto óskaði eftir fundum með Bjarna til að ræða þau mál.
Vonar að Rio Tinto fái „lausn á sínum áhyggjuefnum“
Fjármálaráðherra sagðist hafa „töluvert miklar áhyggjur“ af stöðu alls orkufreks iðnaðar í landinu og bætti við að nýlega hefðu hann og Þórdís Kolbrún heimsótt helstu fyrirtæki landsins í orkufrekum iðnaði til þess að heyra hvernig rekstrarskilyrðin væru. Frá fyrirtækjunum fengu ráðherrarnir þau skilaboð að staðan á alþjóðamörkuðum væri mjög snúin.
„Ég ætla að leyfa mér að binda vonir við að þessi mikilvægi viðskiptavinur Landsvirkjunar geti fengið, í samskiptum við Landsvirkjun, lausn á sínum áhyggjuefnum, sem ég er ekki inni í í neinum smáatriðum,“ sagði Bjarni, um stöðu Rio Tinto.
Hann sagði jafnframt að fylgst yrði náið með því hvernig samskipti fyrirtækja í orkufrekum iðnaði yrðu við Landsvirkjun og stjórnvöld almennt næstu mánuði.