Öll starfsemi sem snýr að börnum á að verða aftur með eðlilegum hætti eftir 4. maí næstkomandi. Þetta á við um leik- og grunnskóla, og íþrótta- og tómstundastarf fyrir börn. Þetta segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í samtali við RÚV en fram kemur í frétt miðilsins að hún hafi kynnt auglýsinguna um tilslökun á samkomubanni á ríkisstjórnarfundi í morgun. Áður hafi verið ákveðið að íþróttastarf utandyra væri heimilt.
Svandís segist í samtali við RÚV hafa viljað skýra betur reglur þar sem fullorðnir koma saman og hins vegar börn. „Með þessari breytingu er verið að opna algjörlega fyrir eðlilegt skólastarf í grunn- og leikskólum. Það þýðir að tveggja metra reglan og fjarlægð milli fólks, það er ekki hægt að uppfylla þegar börn eru annars vegar. En það gildir um fullorðna sem eru með; kennarana og svo framvegis. Allir þurfa að gæta að því hér eftir sem hingað til og þá 50 manna hámark í sama rými,“ segir ráðherrann.
„Sama gildir þá um íþrótta og tómstundastarf fyrir börn. Við erum þá að sjá þau meginþáttaskil 4. maí að starfsemi sem snýst um börn að hún verði með eðlilegum hætti,“ segir hún.
Fram kom á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar þann 14. apríl síðastliðinn að skipulagt íþróttastarf barna á leik- og grunnskólaaldri gæti hafist að nýju, utandyra, en þó með þeim takmörkunum að ekki mættu fleiri en 50 vera saman í hóp og halda skyldi tveggja metra fjarlægðinni eins og mögulegt væri, sérstaklega hjá eldri börnum.
Enn fremur kom fram á fundinum í síðustu viku að annað skipulagt íþróttastarf yrði heimilt utandyra, en þó áfram með miklum takmörkunum. Þannig mættu ekki fleiri en fjórir einstaklingar æfa eða leika saman, snertingar yrðu óheimilar og halda skyldi tveggja metra fjarlægð á milli fólks. Þá þyrfti að halda notkun á sameiginlegum búnaði í lágmarki, en annars sótthreinsa búnaðinn á milli notkunar.
Samkvæmt RÚV á nú aftur á móti að heimila allt íþróttastarf barna bæði innan- og utandyra.