„Núna birtir til og við getum farið að lyfta brúnum og brosa aðeins,“ sagði Anna Birna Jensdóttir frá samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu á upplýsingafundi almannavarna í dag. Þar fór hún yfir niðurstöður vinnu starfshóps um afléttingu á heimsóknarbanni á hjúkrunarheimilum. Farið verður varlega í þessum efnum en fyrstu skrefin verða stigin 4. maí.
Um 2.800 manns eru á hjúkrunarheimilum á Íslandi og hver og flestir eiga þeir marga aðstandendur, „svo þetta er gríðarlegt verkefni sem við erum að fara út í.“
Strax 4. maí verður farið í tilslakanir á heimsóknarbanninu og hvert heimili mun svo aðlaga sig að þeim reglum með tilliti til stærðar heimilis og aðstæðna hverju sinni. Á sumum heimilum eru til dæmis enn tvíbýli og taka þarf sérstaklega tillit til þess.
Anna Birna sagði að aðeins einum nánum aðstandanda í einu væri heimilt að heimsækja hvern íbúa fyrstu tvær vikurnar. Búast mætti við því að hver íbúi fá þá eina heimsókn á viku fyrst í stað, oftar ef aðstæður á heimilunum og í samfélaginu leyfa. „Við treystum því að ættingjar fari að leiðbeiningum sem verða gefnar út,“ sagði hún. „Það má ekkert út af bregða og við verðum að fara mjög varlega.“
Ungmennum á aldrinum 14-18 ára er heimilt að koma í heimsókn en ekki yngri börnum.
Hvert heimili mun halda utan um skráningu og skipulags heimsókna. Í dag verða send út boð til ættingja um hvernig þeir eigi að bera sig að við að panta tíma. Starfsfólk heimilanna munu svo raða þeim niður.
Fólk getur ekki komið í heimsókn án þess að hafa til þess heimild. Fyrirkomulagið verður þannig þannig að starfsmenn munu taka á móti gesti og fylgja honum rakleiðis að herbergi íbúans. Gesti er svo fylgt út sömu leið, þá stystu sem möguleg er. Aðstandendur mega ekki dvelja í sameiginlegum rýmum og áfram er hvatt til þess að ræða við starfsmenn heimilanna í gegnum síma.
„Það er mikilvægt að njóta þessarar stundar og vera bara í heimsókn,“ sagði Anna Birna. „Njótið að hitta ykkar ástvin – það er gjöf að fá að koma til baka, að koma í heimsókn aftur og vera með sínum. Við verðum að meta það.“
Hún minnti á að allir yrðu áfram að virða tveggja metra regluna og því væri ekki hægt að „kyssast og knúsast“ að sinni.
Allir þeir sem koma í heimsókn skulu gæta ítarlegra smitvarna, þvo hendur og spritta og mjög mikilvægt er að þeir sem eru lasnir komi ekki í heimsókn.
Útfærslur á hverju heimili fyrir sig munu liggja fyrir eftir helgi. „Það er notalegt að hugsa til þess að 4. maí verður brotið blað og tekin skref.“