Upplýsingafundur almannavarna í dag var á óvenjulega léttum nótum. Tilefnið var afmæli Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns hjá ríkislögreglustjóra, sem stjórnað hefur fundunum frá því þeir hófust eða í yfir fimmtíu skipti.
„Það er síðasti vetrardagur í dag og það var svo gott að sjá sólina áðan,“ sagði Anna Birna Jensdóttir, formaður samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, þegar hún hafði farið yfir fyrirhugaðar tilslakanir á heimsóknarbanni á hjúkrunarheimilum.
„En það er líka gleðidagur hérna hjá einum sem á afmæli. Það er hann Víðir,“ sagði hún og tók svo fram undan púltinu græna köku og kort. „Þetta er frá öllum framlínustarfsmönnunum sem starfa á öllum þessum hjúkrunarheimilum landsins. Þeir telja marga tugi. Og frá íbúunum sem horfa á sjónvarpsstjörnurnar hérna, þríeykið, alla daga. Það eru allir límdir við sjónvarpið. Við ætlum að þakka fyrir okkur. Vonandi má bjóða þér að taka á móti þessu og að þú getir notið.“
Víðir: Takk (ræskir sig). Takk kærlega fyrir. Maður fær nú bara tár í augun!
Eftir að koma kökunni og kortinu fyrir á borðinu heldur hann áfram: „Ég vil nota tækifærið og þakka ykkur fyrir og hrósa þessum vinnuhópi [um aðgerðir á hjúkrunarheimilum]. Þessi vinna við að finna þessa leið, að geta opnað fyrir heimsóknir. Þó að okkur finnist þetta vera pínulítið skref þá er þetta í ljósi reynslunnar risaskref í þessum málum. Við höfum séð hvað hefur gerst á hjúkrunarheimilum erlendis og harmsögurnar eru margar. Og ég vil þakka fyrir þessa miklu vinnu, miklu sérfræðiþekkingu, sem hefur orðið þess valdandi að við getum gert líf þessa fólks örlítið bærilegra núna. Takk kærlega fyrir það.“
Hann snýr sér svo að næsta máli á dagskrá sem eru tilkynningar frá landlækni sem féll sóttvarnalækni í skaut að lesa.
Víðir: Eitt af því sem okkur hefur verið bent á í þessari vinnu okkar er að við séum eitthvað aðeins að þykkna. Að við séum búin að borða of mikið og kannski er kakan ekki góð að því leytinu til. En nú getum við kannski farið að taka leikfimi.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir tekur svo við og fer yfir tilkynningarnar sem snérust m.a. um að í morgun hafi hafist heimaleikfimi á RÚV.
Hann kom á framfæri fleiri tilkynningum, til dæmis vegna fyrirspurna um COVID-19 sjóð. Sagði hann konurnar sem standa að átakinu Á allra vörum hafa brugðist við þessum fyrirspurnum og að í dag yrði opnaður vefur sem nefnist varasjóður. Hann er hugsaður fyrst og fremst til að koma til móts við ýmis velferðarsamtök sem mikið mæðir nú á.
Þórólfur: Þarna er hægt að leggja til það sem sum okkar hafa sparað. Ég hef til dæmis ekki farið í klippingu mjög lengi sem ég held að eigi við um mörg okkar (skellihlær). Við vorum einmitt að tala um þetta áðan, við Víðir.
Eftir lokaspurningu frá blaðamönnum segir Víðir að venju „það er komið að lokum hjá okkur í dag“ og fer yfir nokkur atriði. Hann minnir á að á morgun sé sumardagurinn fyrsti og að á laugardag sé stóri plokkdagurinn. Hann hvetur alla til að taka þátt en gæta að tveggja metra reglunni og hópastærðum.
Svo verður hann persónulegur og það má heyra að hann er djúpt snortinn. „Mig langar að þakka fyrir mig,“ segir hann, horfir beint í myndavélina og sendir fingurkoss á áhorfendur heima í stofu.