Ríkisendurskoðun segir að það fyrirkomulag að fela bönkum svokölluð stuðningslán, sem verða 100 prósent á ábyrgð ríkissjóðs, geri það að verkum að til „umhugsunar er hvort að með þessum hætti sé í reynd verið að fela einkaaðilum að fara með tiltekið opinbert vald, þó með vissum takmörkunum.“ Stofnunin leggur til að ef banki lánar fyrirtæki stuðningslán án þess að skilyrði laga um veitingu slíkra lána séu uppfyllt ætti ríkisábyrgðina á láninu að falla niður.
Þetta kemur fram í umsögn Ríkisendurskoðunar um frumvarp til fjáraukalaga 2020 sem lagt var fram í síðustu viku til að fjármagna og lögleiða þær aðgerðir sem stjórnvöld kynntu í svokölluðum aðgerðarpakka 2.0.
Velta fyrir sér rétti þeirra sem ekki fá lán
Ríkisendurskoðun segir í umsögn sinni að nær öll skilyrði sem sett eru fyrir því að fá lán með fullri ríkisábyrgð séu hlutlæg, svo sem að tekjusamdráttur nemi ákveðnu hlutfalli af tekjum sama tímabils á árinu 2019, launakostnaður hafi verið að minnsta kosti tíu prósent af rekstrarkostnaði og opinber gjöld séu ekki í vanskilum. Önnur skilyrði séu matskenndari svo sem að ætla megi að rekstraraðili verði verði rekstrarhæfur þegar bein áhrif heimsfaraldar kórónuveiru og aðgerðir stjórnvalda til að verjast henni eru liðin hjá.
Þetta fyrirkomulag geri í reynd ráð fyrir að lánastofnanir veiti lán að tilteknum skilyrðum uppfylltum og ekki verður annað ráðið en að skylt sé að veita lánin séu skilyrðin uppfyllt og að baki þeim sé 100 prósent ábyrgð ríkissjóðs íslands. „Til umhugsunar er hvort að með þessu hætti sé í reynd verið að fela einkaaðilum að fara með tiltekið opinbert vald, þó með vissum takmörkunum. Hvaða rétt gæti það skapað hjá viðkomandi rekstraraðilum sem ekki kynnu að fá lán? Eiga slíkir aðilar einhvern málsskotsrétt og þá hvert eða verður að líta á ákvæði frumvarpanna sem vísireglur?“
Auk þess telur Ríkisendurskoðun eðlilegt að fram komi í lögum að viðmið um tekjur, launa- og rekstrarkostnað og annað slíkt verði sótt í skattskil viðkomandi rekstraraðila.
Standast lánin stjórnarskrá?
Að mati Ríkisendurskoðunar gætu skapast ýmis álitamál við framkvæmd útlánanna og að nær útilokað sé að sjá fyrir þau öll. Um sé ræða afar óvenjulega ráðstöfun sem leiði hugann að því hvort að ákvæði frumvarpsins auk þeirra skilyrða sem sett eru fyrir stuðningslánunum uppfylli 40. grein stjórnarskráarinnar. Í þeirri grein segir að „engan má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.“
Ríkisendurskoðun segir í umsögn sinni að hún gangi út frá að þessa hafi verið gætt við samningu frumvarpanna og þær óvenjulegu aðstæður sem nú séu uppi geri að verkum að ákvæði stjórnarskrárinnar standi ekki í vegi fyrir því að skipa málum með áðurnefndum hætti. „Að lokum skal bent á að full ríkisábyrgð á lánum eins og hér er lagt til getur dregið úr ábyrgðar- og varúðarhegðun sem lánastofnun ber almennt að beita við lánveitingar. Þetta fyrirkomulag veldur því að þau skilyrði sem setja á fyrir lánveitingu þurfa að vera hlutlægari en ella og draga þarf, eins og unnt er úr matskenndum skilyrðum. Að þessu virtu mælir Ríkisendurskoðun með að fjárlaganefnd fjalli um þetta atriði í nefndaráliti og leiði rök að því að ríkisábyrgð eigi að falla niður komi í ljós að skilyrði fyrir lánveitingu hafi ekki verið uppfyllt en lán veitt af lánastofnun allt að einu.“