Forstjóri Boeing tilkynnti hluthöfum í gær að áhrifa faraldurs COVID-19 muni líklega hafa áhrif á starfsemi fyrirtækisins til ársloka 2023 og jafnvel lengur.
„Við búumst við því að það muni taka tvö til þrjú ár þar til ferðalög verða á pari við árið 2019 og nokkur ár til viðbótar þar til vöxtur verður í greininni að nýju,“ sagði forstjórinn Dale Calhoun á árlegum fundi með hluthöfum sem var að þessu sinni haldinn í gegnum fjarfundarbúnað.
Hann sagði einnig að þegar stöðugleiki náist á flugmarkaði verði hann minni og „þarfir viðskiptavina okkar verða aðrar en áður“.
Starfsmönnum Boeing mun fækka um nokkur þúsund í sumar. Það eru þó aðeins fyrstu aðgerðirnar sem miða að því að hagræða í rekstri fyrirtækisins.
Calhoun sagði að viðskiptavinir Boeing, flugfélög um allan heim, væru núna að tæta í sundur áætlanir sínar um fjárfestingar og reyna að búa til nýjar.
Á morgun mun Boeing birta uppgjör sitt fyrir fyrsta ársfjórðung 2020. Á sama tíma mun Calhoun væntanlega fara betur ofan í þær aðgerðir sem framundan eru, m.a. uppsagnir þúsunda sem munu hafa staðbundin áhrif á atvinnulíf í Seattle og víðar.
Fyrir faraldur kórónuveiru átti Boeing í miklum vanda vegna Max-vélanna sem voru kyrrsettar eins og kunnugt er í kjölfar tveggja mannskæðra slysa.
Höggið vegna faraldursins er mun umfangsmeira. Caloun segir að 2.800 flugvélar séu á jörðu niðri í Bandaríkjunum einum saman og þar hafi farþegafjöldi flugfélaganna dregist saman um 95%.
Til að bregðast við þessu þarf flugvélaframleiðandinn Boeing að breyta hraða framleiðslunnar til að ná jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar, eins og Calhoun orðaði það.