Ekkert nýtt smit af kórónuveirunni greindist á Íslandi í gær og eru staðfest smit því enn 1.797. Töluverður fjöldi sýna var tekinn í gær, 142 á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og tæplega 700 hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Í dag eru 659 manns í sóttkví en gær var fjöldinn 715.
Enginn liggur á gjörgæslu vegna COVID-19 en sex manns eru á sjúkrahúsi vegna sjúkdómsins, allir á Landspítalanum. 1.670 manns hafa náð bata.
Af þeim sem greinst hafa með COVID-19 á Íslandi eru tíu látin.
Hlutfallslega flestir hafa smitast af kórónaveirunni á Íslandi í aldursflokknum 40-49 ára að því er fram kemur í tilraunatölfræði Hagstofunnar. Yngstu aldursflokkarnir eru með hlutfallslega fæst smit miðað við mannfjölda. Sama gildir um elstu aldursflokkana að undanskildum þeim allra elstu en þar vegur hvert smit þungt. Hinsvegar eru aldursflokkarnir þar á milli með hlutfallslega fleiri smit ef miðað er við mannfjöldann, sérstaklega aldursflokkarnir 40-49 ára og 50-59 ára.
Á mánudaginn, 4. maí, hefst aflétting samkomutakmarkana á Íslandi í skrefum. Þá verður allt að 50 manns heimilt að koma saman og starfsemi leik- og grunnskóla að komast í samt horf.