Það styttist í að forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson ljúki kjörtímabili sínu. Hann hyggst bjóða sig fram til forseta að nýju. Um þessar mundir eru einmitt fjögur ár frá því að hann bauð sig fram. „Senn er kjörtímabilið á enda og sú sjálfsagða skylda fram undan að safna meðmælum fyrir framboð mitt á nýjan leik,“ skrifar Guðni á Facebook-síðu sína í morgun.
„Sú söfnun hlýtur hins vegar að verða með öðrum hætti en síðast. Því miður gefst ekki sama færi nú og þá að hitta fólk sem víðast og oftast. Í staðinn reiðum við okkur á samfélagsmiðla og rafrænar undirskriftir.“
Guðni skrifar að þetta komi til af augljósum ástæðum; vegna nauðsynlegra varna gegn veirunni skæðu, eins og hann orðar það.
„Þótt vel hafi gengið hingað til er baráttu okkar gegn þeim vágesti ekki lokið. En það mun birta til! Það býr kraftur í þessari þjóð. Stefnum að því saman að vinna bug á farsóttinni. Og stefnum svo að því saman að skapa hér enn betra samfélag en áður. Með það í huga ákvað ég að bjóða mig fram til endurkjörs. Með það í huga vil ég þjóna landi og þjóð.“
Kæru vinir! Ég vona að ykkur líði vel. Nú eru liðin um fjögur ár frá því að ég bauð mig fyrst fram til forseta Íslands....
Posted by Guðni Th. 2020 on Friday, May 8, 2020