Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair Group er bjartsýnn á að nýir kjarasamningar náist við flugmenn og flugfreyjur, þó að „því miður“ hafi viðræður ekki enn borið árangur. Hann telur kjarasamninga við flugstéttirnar bæði „gamla og flókna“. Þetta kom fram í máli Boga á starfsmannafundi á innri vef Icelandair í dag.
Þar sagði hann, aðspurður, að launakostnaður vegna flugmanna og flugstjóra hjá félaginu væri um 30 prósent af heildarlaunakostnaði félagsins og launakostnaður vegna flugfreyja væri um 20 prósent. Í fyrra störfuðu yfir 4.700 manns að meðaltali hjá Icelandair, þar af á milli 550 og 650 flugmenn eða -stjórar og um 1.000 flugfreyjur.
Á starfsmannnafundinum sagði forstjórinn að kröfur Icelandair í samningsviðræðum við flugstéttirnar tvær lúti að því að vinnuframlag starfsmanna aukist, en að stefnan sé ráðstöfunartekjur fólks minnki sem minnst og jafnvel aukist, þannig að Icelandair verði áfram „frábær og eftirsóknarverður vinnustaður“.
Bogi Nils sagðist skilja vel að það væri erfitt að gefa eftir réttindi sem fólk hefði náð fram í kjarasamningum, en Icelandair teldi að það væri að bjóða vel og störf hjá fyrirtækinu yrðu áfram eftirsóknarverð.
Tilboðum frá Icelandair hefur verið tekið fálega af stéttarfélögum flugstéttanna, Flugfreyjufélagi Íslands og Félagi íslenska atvinnuflugmanna.
Launin samkeppnishæf en vinnuframlagið minna
Bogi sagði á fundinum að hann teldi laun flugstjóra og flugmanna félagsins samkeppnishæf og í takt við það sem gerist hjá samanburðarflugfélögum á Norðurlöndunum, en að á móti kæmi að hjá samanburðarflugfélögum væri vinnuframlag flugmanna meira. Bogi nefndi að þau flugfélög sem Icelandir liti til í slíkum samanburði væru til dæmis Air Lingus, Jet Blue, SAS og Finnair.
Heilt yfir sagði forstjórinn að það væri fleira sem mætti vera sterkara hjá flugfélaginu en bara launakostnaður flugstéttanna og að það væri allt undir í þeim efnum, nú þegar að fyrirtækið reynir að sannfæra fjárfesta um að leggja til allt að 29 milljarða til þess að koma flugfélaginu yfir krísuna sem er í flugheiminum vegna heimsfaraldursins.
Tækifæri fyrir þau félög sem lifa storminn af
Bogi Nils sagði Icelandair búa sig undir langt tímabil af mjög lítilli framleiðslu og að erlendis væri það að sýna sig að flugfélög væru ekki að komast í gegnum þetta tímabil án aðstoðar frá ríkissjóði, en Icelandair er með vilyrði fyrir lánalínum með ríkisábyrgð ef félaginu tekst að safna fjármunum frá fjárfestum í hlutafjárútboði.
Forstjórinn sagði ljóst að stóru línurnar í samningamálum flugstéttanna þyrftu að liggja fyrir þegar hluthafar Icelandair koma saman til fundar 22. maí næstkomandi. Hann væri vongóður um að samningar næðust.
Bogi Nils sagði jafnframt að þegar heimsfaraldurinn og áhrif hans á fluggeirann yrðu liðin hjá myndu tækifæri blasa við þeim fyrirtækjum sem næðu að standa af sér höggið.
Icelandair gæti orðið eitt þeirra, ef allt gengi að óskum, enda tæki það mörg ár að byggja upp flugfélag með innviði eins og Icelandair hefði yfir að ráða, sérstaklega hvað varðar leiðakerfið.