Kåre Mølbak, yfirmaður sóttvarnastofnunar Danmerkur, segir að með aðgerðum sem gripið hafi verið til í landinu hafi tekist að hægja verulega á útbreiðslunni og fækka smitum. Þó að ákveðnum takmörkunum sem settar voru á hafi nú verið aflétt hefur smitum ekki fjölgað á ný.
Ríkisstjórn Danmerkur kynnti í gærmorgun áætlun um að auka við sýnatökur og smitrakningu.
Í Danmörku hafa 527 dauðsföll orðið vegna COVID-19. Í dag liggja 177 á sjúkrahúsi vegna sjúkdómsins og hefur fækkað um tuttugu síðasta sólarhringinn. Mjög hefur dregið úr fjölda þeirra sem þurfa á innlögn og gjörgæslumeðferð að halda allt frá 1. apríl er hann var mestur eða 535.
Danir gripu snemma til strangra takmarkana vegna faraldursins. Þeir voru einnig meðal fyrstu þjóða Evrópu til að gera tilslakanir á þeim. Mánuður er síðan skólar voru opnaðir á ný og fleiri aðgerðum hætt en smitum hefur stöðugt haldið áfram að fækka sem og innlögnum á sjúkrahús og dauðsföllum.
Mølbak telur að ekkert land hafi enn sem komið er fengið yfir sig aðra bylgju faraldurs. Fjöldi smita hefði þó sveiflast í mörgum þeirra. „En miðað við þá þekkingu sem við höfum í dag þá tel ég það mjög ólíklegt að hér verði önnur bylgja.“
Eftir að Þjóðverjar höfðu náð góðum tökum á faraldrinum og aflétt ýmsum takmörkunum fjölgaði smitum snögglega á ný síðustu daga. Þetta hefur valdið áhyggjum meðal stjórnvalda í öðrum ríkjum.
Í upphafi vikunnar tóku Danir annað skref í afléttingum á aðgerðum sínum. Í þessu skrefi verða veitingahús og verslunarmiðstöðvar opnaðar. Þrátt fyrir það er R-tala veirunnar enn vel undir 1 sem þýðir að faraldurinn er enn í rénun í landinu.
Ríkisstjórnin ætlar á næstunni að gera átak í sýnatökum, ítarlegri smitrakningu og hefur heitið því að eiga nægar birgðir af hlífðarfatnaði fyrir heilbrigðisstarfsfólk.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, minnti þó á alvöru faraldursins á blaðamannafundi í morgun. „Kórónuveiran er enn sú sama. Hún er jafn smitandi og áður og jafn hættuleg.“