Í desember tók læknirinn Li Wenliang eftir því að inn á sjúkrahúsið sem hann starfaði leituðu sífellt fleiri með einkenni sem ollu honum hugarangri. Þetta voru svipuð einkenni og fólk hafði glímt við í SARS-faraldrinum árið 2003 og því ákvað hann að vara kollega sína við. Síðasta dag desembermánaðar sendi hann skilaboð inn í spjallhópa lækna á netinu og sagði þeim að klæðast varnarbúnaði. Svæsin veirusýking var farin að breiðast út í borginni sem hann bjó og starfaði í: Wuhan.
Li var tekinn á teppið af yfirvöldum fyrir að „breiða út falsaðar upplýsingar“. Skömmu síðar var hann beðinn afsökunar. Öllum var orðið ljóst að ný veira væri að valda alvarlegum sjúkdómi sem síðar átti eftir að fá nafnið COVID-19.
Þann 10. janúar byrjaði Li að hósta. Næsta dag fékk hann hita og tveimur dögum síðar var hann sjálfur lagður inn á sjúkrahús. Í lok mánaðarins var hann greindur með nýju kórónuveiruna og nokkrum dögum síðar lést hann.
Við þekkjum öll framhaldið: Heimsfaraldur kórónuveiru hefur haft áhrif um allan heim á heilsu og efnahag. Þeir sem staðið hafa í framlínunni, heilbrigðisstarfsfólk, kennarar, lögreglumenn og fleiri, hafa borið hitann og þungan af ástandinu.
Um allan heim hafa yfirvöld orðið að grípa til gríðarlegra varúðarráðstafana til að tryggja öryggi heilbrigðisstarfsfólks og vernda það fyrir því að sýkjast af veirunni. Það hefur ekki alltaf tekist – oft vegna þess að hlífðarfatnaður er ekki til staðar.
Forsætisráðherra Bretlands greindi frá því nýverið að í það minnsta 275 heilbrigðisstarfsmenn hefðu dáið vegna COVID-19. Talið er að um vanmat sé að ræða. Fólk sem starfar í félagsþjónustu er í enn meiri hættu. Í Bandaríkjunum hefur þessum tölum ekki verið haldið saman miðlægt en um miðjan apríl var það mat Sóttvarnastofnunar landsins að um 9.300 heilbrigðisstarfsmenn hefðu sýkst af COVID-19 og að 27 hefðu látist. Meirihlutinn taldi sig hafa smitast við störf sín. Í fátækari löndum er staðan verri. En þaðan er oft ekki áreiðanlegar upplýsingar um fjölda smitaðra að fá.
En veiran skæða er ekki það eina sem ógnar heilbrigði framlínufólksins. Ofbeldi gegn heilbrigðisstarfsmönnum hefur til að mynda aukist síðustu ár og sömuleiðis örmögnun – kulnun. Slíkt skipsbrot má rekja til ofurálags sem aftur má rekja til manneklu.
Í grein Economist er farið yfir helstu vandamál og hættur sem steðja að heilbrigðisstarfsfólki. Þar er bent á að þessi hópur hefur undanfarna mánuði verið sýnilegri og að sama skapi berskjaldaðri en líklega nokkru sinni fyrr. Um tíma höfðu útgöngu- og samkomubönn áhrif á um þriðjung jarðarbúa samtímis og fólk sem vann við að sinna sjúkum var meðal þeirra fáu sem voru á ferli. Fólkið í framlínunni varð að mæta í vinnuna á meðan aðrir gátu leitað skjóls á heimilum sínum.
Yfir þriðjungur orðið fyrir ofbeldi
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin telur að um 38 prósent heilbrigðisstarfsmanna um víða veröld hafi orðið fyrir líkamlegu ofbeldi við störf sín einhvern tímann á starfsævinni. Á mörgum svæðum er hlutfallið mun hærra. Í fyrra sagðist einn af hverjum sjö starfsmönnum breska heilbrigðiskerfisins hafa orðið fyrir líkamsárás í starfi. Ýmist eru það sjúklingar eða almennir borgarar sem hafa ráðist á þá. Einn af hverjum þremur læknum í Ástralíu hefur orðið fyrir ofbeldi í vinnunni. Um 75 prósent indverskra lækna hefur verið hótað ofbeldi. Dæmin eru miklu fleiri og frá öllum heimshornum.
Merki eru um að ótti við að smitast af COVID-19, sem magnast upp vegna villandi upplýsinga um sjúkdóminn, hafi ýtt undir frekara ofbeldi í faraldrinum, segir í grein Economist. Í stað líkamlegs ofbeldis eru árásirnar gerðar með fúkyrðaflaumi. Hafa læknar og hjúkrunarfræðingar m.a. verið sakaðir um að breiða veiruna vísvitandi út. Óþolinmæði og pirringur er einnig látinn bitna á heilbrigðisstarfsfólki. Starfsfólk á sjúkrahúsi einu í Ástralíu sagði að fólk sem væri að bíða eftir að komast í sýnatöku hefði viljandi hóstað og hrækt á það.
Virðing og traust dvínað
Virðing fyrir heilbrigðisstarfsfólki er heldur ekki upp á marga fiska í sumum löndum. Frá því á tíunda áratug síðustu aldar hefur einkareknum sjúkrahúsum í Kína fjölgað og á sama tíma hefur traust almennings til þeirra sem á þeim starfa dvínað. Fólk grunar lækna um að hugsa fyrst og fremst um peninga en ekki heilsu sjúklinga sinna. Svipað hefur gerst á Indlandi.
Bráða- og slysadeildir í nútíma heilbrigðiskerfum eru oftast opnar öllum. Þangað eiga flestir greiða leið inn. Og þar eru heilbrigðisstarfsmenn hvað berskjaldaðastir. Til að draga úr ofbeldi gegn þeim hefur verið gripið til alls konar ráðstafana. Á bandarískum sjúkrahúsum hafa sum staðar verið sett upp málmleitarhlið. Starfsmenn kínverskra sjúkrahúsa fá kennslu í sjálfsvörn og nú í apríl var indverskum lögum breytt þannig að þeir sem grunaðir eru um árásir á heilbrigðisstarfsfólk geta ekki losnað úr gæsluvarðhaldi gegn tryggingu. Í Ástralíu hafa stjórnendur sjúkrahúsa beðið starfsfólk að vera ekki í sjúkrahúsfatnaði á almannafæri. Þannig geti það lágmarkað hættuna á því að verða fyrir árás.
Heilbrigðisstarfsmenn vinna oft langa vinnudaga. Utan vinnu eru þeir svo margir hverjir til taks allan sólarhringinn ef á þarf að halda. Í faraldri COVID-19 hafa margir heilbrigðisstarfsmenn, m.a. hér á landi, verið nánast í sóttkví þegar þeir eru ekki að vinna. Hafa ekki hitt ástvini og vini vikum saman, allt til að vernda sjúklingana.
Kulnun í starfi er því útbreidd meðal þessara starfsstétta, jafnvel í ástandi sem getur talist „eðlilegt“. Um 70 prósent kínverskra heilbrigðisstarfsmanna sem sinntu COVID-sjúklingum þegar faraldurinn var sem verstur upplifðu vanlíðan. Læknum og hjúkrunarfræðingum hefur einnig verið hótað af stjórnvöldum í sumum löndum eftir að hafa gagnrýnt opinberlega viðbrögð við faraldrinum. Þrír rússneskir læknar féllu út um glugga á sjúkrahúsi nýverið. Tveir þeirra létust. Allir höfðu þeir tjáð skoðanir sínar á viðbrögðum stjórnvalda. Fjölmiðlar í landinu segja að annað hvort hafi verið um slys að ræða eða að læknarnir hafi stytt sér aldur.
Á Ítalíu, svo dæmi sé tekið, voru læknar settir í þá stöðu að þurfa að velja hverjir fengju að fara í öndunarvélar og hverjir ekki. Þannig voru þeir í raun látnir velja hvaða sjúklingar ættu von um að lifa og hverjir myndu deyja. Og víða um heim voru heimsóknir á sjúkrahús bönnuð í faraldrinum og heilbrigðisstarfsfólk horfði upp á sjúklinga liggja banaleguna og deyja án þess að geta haft ástvini sína hjá sér.
Við slíkar sálrænar raunir skapast hætta á því sem kallast áfallastreita en fylgifiskar hennar eru m.a. ofsakvíði og þunglyndi, segir í grein Economist.
Til að koma í veg fyrir þetta er nauðsynlegt að starfsfólk úr eldlínunni faraldursins fái persónulega aðstoð og að hún bjóðist yfir langt tímabil. Bresku læknasamtökin óttast að efnahagskreppan sem fylgt hefur faraldrinum verði til þess að þjónusta sem þessi verði skorin niður.
Þegar mesta hættan af veirusýkingu verður liðin hjá þarf að huga vandlega að líðan framlínufólksins.
Í viðtali við Læknablaðiðí apríl sagðist Alma Möller landlæknir hafa áhyggjur af álagi á heilbrigðisstarfsfólki í faraldrinum. Embætti landlæknis hefði kallað eftir upplýsingum frá heilbrigðisstofnunum um allt land svo að huga mætti að heilsu starfsmanna.