Fyrsta bóluefnið gegn COVID-19 sem prófað var á mönnum virðist öruggt og framkalla ónæmi gegn veirunni, segir í yfirlýsingu bandaríska líftæknifyrirtækisins Moderna. Fyrstu niðurstöðurnar eru byggðar á prófunum á átta manns sem hófust í byrjun mars. Hver og einn fékk tvo skammta af bóluefninu.
Sjálfboðaliðar mynduðu allir mótefni sem var svo prófað í frumum á rannsóknarstofu og kom í veg fyrir að veiran fjölgaði sér. Mótefnið var það sama og myndaðist hjá fólki sem náði sér af COVID-19.
Í frétt New York Times segir að ferlinu við þróun bóluefnisins hafi verið hraðað og að á næsta stigi þess, sem hefst fljótlega, verði efnið prófað á um 600 manns. Í júlí er ráðgert að hefja prófanir með þúsundum þátttakenda. Bandaríska lyfjastofnunin gaf Moderna nýverið leyfi til að hefja næsta stig rannsóknarinnar.
Ef allt gengur að óskum gæti bóluefnið komið á markað í lok þessa árs eða í byrjun þess næsta, segir Tal Zaks, yfirlæknir Moderna í viðtali við New York Times. Óvíst er enn hversu margir gætu þá fengið bólusetningu en Zaks segir að allt verði reynt til að koma því til milljóna manna sem fyrst.
Tugir lyfjafyrirtækja í Bandaríkjunum, Evrópu og Kína eru að þróa bóluefni gegn COVID-19. Aðferðirnar eru ólíkar. Sum fyrirtækin nota sömu aðferð og Moderna sem felst í því að nota hluta af erfðaefni veirunnar en ekki veiklaða veiru eins og hingað til hefur verið gert við þróun bóluefna.
Moderna hefur einnig gert tilraunir á dýrum við þróun efnisins. Mýs voru bólusettar og þær smitaðar af veirunni. Kom efnið í veg fyrir að veiran næði að fjölga sér í lungum þeirra.
Nokkur önnur lyfjafyrirtæki hafa hafið prófanir bóluefni á fólki, m.a. fjögur í Kína.
Þróun bóluefnis er tímafrek. Reynslan sýnir að ferlið getur tekið mörg ár. Það eitt að finna bóluefni sem virkar er svo aðeins fyrsta skrefið því það tekur tíma að framleiða það – hvað þá fyrir hundruð milljóna manna eins og nú þarf til.