Þegar Thomas Moore ákvað að ganga hundrað hringi í garðinum við heimili sitt áður en hann yrði hundrað ára vonaðist hann til að safna um þúsund pundum, um 175 þúsund krónum, til styrktar bresku heilbrigðiskerfi. Það sem hins vegar gerðist er kraftaverki líkast. Að minnsta kosti gat Moore ekki ímyndað sér að viðbrögðin yrðu jafn stórkostleg og þau urðu. Hvað þá að hann myndi fá persónulega kveðju frá krónprinsi landsins. Hermaðurinn fyrrverandi safnaði í heildina um 40 milljónum punda með uppátæki sínu eða um sjö milljörðum króna.
„Ég hafði ekki hugmynd um að þetta yrði svona vinsælt,“ segir Moore um áheitasöfnunina. „Þetta var bara hugmynd sem kom upp innan fjölskyldunnar. Að ég myndi ganga um til að hreyfa mig. En svo óx þetta og óx.“
Moore studdist við göngugrind er hann fór hringina sem urðu að endingu tvö hundruð og með orður sem hann hafði fengið fyrir framlag sitt í síðari heimsstyrjöldinni á brjóstinu. Hann fór út að ganga í hvaða veðri sem var og fangaði þar með hjörtu Breta og margra annarra um heim allan. „Fyrsti hringurinn var erfiðastur,“ segir hann, „en eftir hann þá komst þetta upp í vana.“
Þegar hann svo náði takmarki sínu á hundrað ára afmælisdaginn, flugu Spitfire-flugvélar yfir húsið honum til heiðurs. Þá fékk hann yfir 120 þúsund kort með heillaóskum. Moore gamli var orðinn alþjóðleg hetja.
Til að vekja enn meiri athygli á málstaðnum gaf hann ásamt Michael Ball út hvatningarlag sem náði fyrsta sæti á breskum vinsældalistum. Moore segist hafa hugsað um boðskap lagsins á göngunni – að halda áfram að ganga með von í hjarta. Og þegar sífellt fleira fólk um allan heim lét fé af hendi rakna til söfnunarinnar gerði hann einmitt það: Hélt áfram að ganga. „Og ég naut hvers skrefs sem ég tók“.
Moore segir að lykilinn að því að lifa löngu og hamingjuríku lífi felist í því að vera jákvæður og búast alltaf við hinu besta. „Ég held að enginn hugsi um það að verða hundrað ára. Þegar ég var fimmtugur þá gat ég ekki ímyndað mér að líf mitt væri hálfnað. Núna þegar ég er orðinn hundrað ára þá líður mér ekkert öðruvísi en þegar ég var 99 ára. Ég er mjög ánægður að hafa náð þessum aldri og svo kemur bara í ljós hvað ég tóri lengi.“
Að sitja aðgerðarlaus hefur aldrei verið Moore að skapi. „Allt frá því að ég var lítill drengur þá var ég alltaf að gera eitthvað. Áður en að ég fór að eiga í vandræðum með fótinn þá eyddi ég miklum tíma í garðvinnu. Ég er jafnþungur núna og ég var 21 árs!“
Thomas Moore fæddist árið 1920 í Keighley í Yorkshire. Hann lagði fór í verkfræðinám en var kvaddur í herinn um tvítugt og varð að gera hlé á náminu meðan hann gengdi herþjónustu í síðari heimsstyrjöldinni. Herdeildin hans hafði það hlutverk að verja ströndina við Cornwall fyrir mögulegri innrás Þjóðverja. Síðar var hann sendur til Indlands og einnig Búrma til að verja þessi lönd, sem þá voru nýlendur Breta, fyrir innrásum Japana.
Hann minnist þess ekki að hafa óttast um líf sitt. „Þegar þú ert í hernum og ert tvítugur þá ertu ekki að hugsa mikið um hvort þú sért í hættu. Ég man ekki eftir því að hafa verið hræddur. Kannski hefði ég átt að vera það! En við lifðum af.“
Honum verður oft hugsað til áranna í hernum og þeirra félaga sem hann eignaðist. „Ég myndi gera þetta allt aftur ef ég gæti.“
Moore mun á næstunni gefa út tvær bækur. Önnur þeirra verður ævisaga og útgefin af góðgerðasamtökum sem stofnuð hafa verið í hans nafni. Hin verður barnabók. „Það hvarflaði aldrei að mér að einhver myndi hafa áhuga á sögu minni og ég átti svo sannarlega ekki von á því að hún yrði einhvern tímann gefin út. Ég er svolítið smeykur að segja frá öllum mínum leyndarmálum!“
Þakkar fyrir heiðurinn
Undirskriftasöfnun hefur verið í gangi um hríð um að aðla beri Moore fyrir afrek sitt. Sjálfur hafði hann litla trú á að það yrði nokkru sinni að veruleika. Honum fannst hugmyndin góð og fannst nafnið sitt hljóma vel með „sir“ fyrir framan.
En nú er þetta orðið að veruleika. Thomas Moore, sem gekk tvö hundruð hringi í garðinum sínum og safnaði á meðan áheitum fyrir breska hjúkrunarfræðinga, hefur fengið aðalstign að tillögu Boris Johnson forsætisráðherra sem kallar Moore „sannkallað þjóðargersemi“.
Í beinni útsendingu á BBC í gærmorgun sagðist Moore vera hrærður og þakklátur. Hann sagðist steinhissa að þessi heiður félli honum í skaut. Í fyrstu hélt hann jafnvel að um grín væri að ræða. „En það virðist sem þetta hafi gerst í raun og veru!“