Skipuleggjendur tónlistarhátíðarinnar Bræðslunnar á Borgarfirði eystra hafa ákveðið að hátíðin fari ekki fram í sumar og segja það samfélagslega skyldu sína að að aflýsa hátíðinni, þrátt fyrir að verið sé að létta á samkomutakmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins.
Með þessari ákvörðun segjast skipuleggjendur vilja afstýra allri mögulegri smithættu sem gæti falist í því að stefna saman fjölda fólks á Borgarfirði eystra, en hvetja um leið til þess að fólk sæki fjörðinn heim í sumar og nýti sér þá afþreyingu og þjónustu sem þar er.
„Við munum mæta aftur sumarið 2021 með bestu Bræðslu allra tíma!“ segja hátíðarhaldarar í færslu í Facebook-færslu í dag.
Tónlistarhátíðin Bræðslan hefur farið fram árlega frá því árið 2005 og undanfarin ár hafa þúsundir gesta sótt Borgarfjörð eystra heim síðustu helgina í júlí, þrátt fyrir að einungis hluti þeirra komist inn á tónleikana sjálfa, sem haldnir eru í gömlu síldarbræðslunni í þorpinu.
Þrátt fyrir að neyðarstigi Almannavarna sé aflétt í dag og samkomutakmarkanir á undanhaldi teljum við aðstandendur...
Posted by Bræðslan on Monday, May 25, 2020