„Góðan og blessaðan daginn og velkomin á þennan upplýsingafund sem verður sá síðasti að sinni. Ég heiti Víðir Reynisson og með mér í dag eru Þórólfur og Alma. [...] og það er hún Iðunn sem túlkar fyrir okkur í dag.“
Á þessum orðum, á slaginu klukkan 14.03, hófst einn vinsælasti dagskrárliður í íslensku sjónvarpi fyrr og síðar: Upplýsingafundur almannavarna vegna COVID-19.
Þó að um mikil tímamót hafi verið að ræða, ekki aðeins hjá þríeykinu heldur þjóðinni allri sem fær nú ekki að njóta návistar þess heima í stofu reglulega, hófst fundur dagsins með hefðbundnum hætti.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fór yfir „stöðuna til að byrja með“ eins og Víðir sagði er hann gaf félaga sínum orðið.
„Ekkert sýni greindist jákvætt síðasta sólarhringinn,“ sagði sóttvarnalæknir. Í maí hafa margir dagar verið án smita. Þegar mest lét þurfti Þórólfur að greina frá 106 smitum á einum sólarhring. Það var þann 24. apríl.
„Í dag er stór dagur,“ sagði hann eftir að hafa sagt, eins og svo oft síðustu vikur, að smit í samfélaginu virtist lítið.
Áhorfendur heima í stofu sperrtu eyrun.
Stóru dagarnir, stóru áfangarnir hafa verið margir. En það hafa stóru skellirnir líka verið. Smit sem dag frá degi hófu að mynda bratta brekku skömmu eftir að það fyrsta greindist, 28. febrúar. Faraldurinn náði hér hámarki, eins og vísindamenn Háskóla Íslands höfðu reyndar spáð til um, í fyrstu viku apríl. Og þá hófst ferðin niður brekkuna.
Með „stóra deginum“ vísaði Þórólfur til þess skrefs sem stigið var í afléttingu samkomutakmarkana í dag. Nú mega 200 koma saman í stað 50 áður og ýmis starfsemi getur hafist að nýju með takmörkunum þó. Þá hefur tveggja metra reglan verið skilgreind aftur „og er orðin valkvæð, getur maður sagt, upp að vissu marki,“ sagði Þórólfur.
Hann virtist sáttur þegar hann sagði „óhætt að segja“ að mögulegt hafi verið að fara hratt í afléttingar á takmörkunum, „í trausti þess að allir haldi áfram að gæta að sínum einstaklingsbundnu sóttvörnum og að veiran fari ekki að valda auknum sýkingum í samfélaginu aftur.“ Ef allt gengur að óskum verður næsta skref stigið að þremur vikum liðnum og þá má gera ráð fyrir að um 500 manns megi koma saman.
„Ég ætla ekki að segja meira í dag,“ sagði Þórólfur en átti reyndar ekki eftir að standa við það.
Alma Möller landlæknir „minnti á appið“ og sagði jafnvel enn mikilvægara en áður að hafa það til að rekja ferðir okkar ef til smits kemur. Alma hefur ítrekað minnt á appið á upplýsingafundunum og nú er það komið í 140 þúsund símtæki.
Landlæknir fór yfir tölur um heilbrigðisþjónustuna og nefndi til dæmis að fljótt á litið hefði ekki orðið breyting á innlögnum vegna hjarta- og heilaáfalla og ekki heldur fleiri dauðsföll. Það bendi til þess að tekist hafi að sinna bráðaþjónustu eins og stefnt var að. Ekki urðu miklar breytingar á lyfjaávísunum á meðan faraldurnn gekk yfir en þó urðu þau jákvæðu tíðindi að ávísunum á sýklalyf til barna fækkaði. Þá sagði hún að það sem sóttvarnalæknir hefði haldið fram snemma varðandi börn og COVID væri staðfest: Þau fá síður veiruna, þau smita síður frá sér og „veikjast sem betur fer minna“.
Einnig væru merki um jákvæð áhrif á heilsu fólks, færri sofa of lítið svo dæmi sé tekið og notkun ungs fólks á sígarettum og rafrettum var áberandi minni síðustu vikur. „Íslensk þjóð verður að sýna kjark en á sama tíma ítrustu varkárni,“ sagði hún.
„Kæru landsmenn, okkur gekk vel að takast á við kúf faraldursins,“ sagði Alma svo og þakkaði heilbrigðisstarfsfólki og þjóðinni allri fyrir. „Ég er þess fullviss að við munum takast áfram á við þetta af yfirvegun og skynsemi og með bestu þekkingu sem völ er á hverju sinni.“
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og ráðherra almannavarna, voru gestir þessa síðasta fundar. Þær lofuðu þríeykið í hvívetna. Svandís sagði að Víði, Þórólfi og Ölmu hefði tekist að fylla fólk öryggi. „Þetta var verkefni samfélagsins alls en í dag er mér efst í huga þakklæti og lotning fyrir þessu einstaka fólki hér,“ sagði hún og afhenti þremenningunum þakklætisvott. „Takk fyrir ykkur.“
Svandís vottaði aðstandendum þeirra tíu sem látist hafa hér á landi vegna COVID-19 innilega samúð.
Áslaug Arna sagði það til marks um þann góða árangur sem náðst hefði að um síðasta upplýsingafundinn í bili væri að ræða. Í dag hafi því verið óhætt að fara af neyðarstigi í almannavörnum.
Ráðherrann sagði að margir hefðu eflaust fundið fyrir ótta síðustu vikur en að sá ótti hefði þó ekki stjórnað neinu enda viðbrögð þríeykisins verið aðdáunarverð og einkennst af yfirvegun og skynsemi. „Þrautseigja og kjarkur lýsir þeim best.“
Áslaug hélt svo áfram og sagði: „Það er alveg ljóst að þessi staða...“
Hún gerði örstutt hlé á máli sínu er ljósin í fundarrýminu slokknuðu skyndilega.
„Og nú slokknaði ljósið,“ hélt hún áfram létt í bragði. „Þessi tæknibilun sýndi og sannaði að þetta er að klárast, að þessu er að ljúka.“
Víðir gaf svo að venju orðið laust fyrir spurningar.
Eru sex smit í maí toppurinn á ísjakanum? (Líklega ekki. Það virðist vera lítið smit í samfélaginu).
Ef önnur bylgja faraldurs kemur, til hvaða aðgerða verður þá gripið? (Við vitum meira um veiruna núna en í febrúar og aðgerðir yrðu endurmetnar í ljósi þess).
Verður ekki meiri hætta á smiti þegar krárnar verða opnaðar? (Víðir hefur mikla trú á fólki og skynsemi þess og „hefur fulla trú á að allir passi sig“).
Hversu lengi mun tveggja vikna sóttkví vera nauðsynleg við komuna til landsins? (Vinnuhópur skilar í dag tillögum að útfærslu að opnun landamæra og í kjölfarið mun sóttvarnalæknir leggja fram tillögur um framkvæmdina).
Hefur heilbrigðisráðherra fylgt tilmælum sóttvarnalæknis í hvívetna? (Já, íslensku sóttvarnalögin eru skýr. „Við treystum Þórólfi,“ sagði Svandís).
Er COVID-19 sjúkdómurinn ekki eins lífshættulegur núna og hann var? (Alltof snemmt að segja til um það en undanfarið hafa þeir sem greinst hafa með sjúkdóminn veikst minna en í upphafi faraldursins).
Eftir spurningaflóðið, það síðasta frá fjölmiðlamönnum í bili, bað Þórólfur aftur um orðið. „Að lokum, þar sem þessir tveir ágætu ráðherrar hafa verið að ausa okkur lofi hér, þríeykið, þá vil ég fá að ausa því til baka.“ Hann sagði ráðherrana hafa verið „frábæra í samstarfi“ og að þeir hafi gert vinnu þeirra allra auðveldari. „Það er mjög dýrmætt að geta hringt í ráðherra nokkrum sinnum á dag og rætt málið. Það er ekki sjálfgefið. Ég vil bara þakka Svandísi sérstaklega fyrir góða samvinnu og vonandi verður þessi samvinna áfram. Ég á ekki von á öðru.“
Þegar fundurinn hafði staðið í rétt rúman hálftíma, um það bil jafn lengi og stefnt var að í upphafi syrpunnar, var það Víðir sem átti lokaorðin.
„Komið að lokum hjá okkur í dag. Síðasta frá mér... mig langar bara að senda þakklæti til þessa fjölbreytta hóps sem myndar okkar fallega samfélag. Þetta hefði ekki tekist nema að þið gerðuð þetta.
Takk fyrir.“