Stjórnvöld víðsvegar í Evrópu skoða nú að aflétta ferðatakmörkunum til að blása lífi í ferðaþjónustuna, nú þegar kórónuveirufaraldurinn er í rénun. Sums staðar hafa slíkar tilslakanir verið samþykktar. Til að mynda hefur ríkisstjórn Spánar samþykkt að frá og með 1. júlí munu erlendir ferðamenn sem sækja landið heim ekki þurfa að fara í sóttkví.
Ákvörðunin er sögð gífurlega mikilvæg fyrir spænskan efnahag sem reiðir sig mikið á ferðaþjónustu. Hlutabréf í evrópskum ferðaþjónustufyrirtækjum hækkuðu mikið við opnun markaða í morgun, STOXX vísitalan sem heldur utan um fyrirtæki í ferðaþjónustu tók um 7 prósent kipp upp á við.
Þjóðverjar íhuga nú að aflétta ferðatakmörkunum á milli Þýskalands og 31 lands í Evrópu þann 15. júní næstkomandi. Löndin sem um ræðir eru aðildarríki Evrópusambandsins, lönd innan Schengen-svæðisins og Bretland. BBC greinir frá því að ríkisstjórn Angelu Merkel taki fyrir frumvarp þess efnis á morgun, miðvikudag. Nú þegar hafa landamæri Þýskalands og Lúxemborgar verið opnuð. Þjóðverjar höfðu enn fremur stefnt að því að opna landamærin við nágrannaríkin Austurríki, Frakkland og Sviss þann 15. júní en einhverjar tilslakanir í landamæraeftirliti þar á milli komu til framkvæmda 15. maí.
Mun fleiri lönd í Evrópu setja stefnuna á að opna landamærin á sama tíma og Þýskaland. Það sama er uppi á teningnum hér en stefnt hefur verið að því að geta boðið ferðamönnum sem hingað koma upp á COVID-19 próf á Keflavíkurflugvelli eigi síðar en 15. júní.
Á Bretlandseyjum hefur útgöngubann verið í gildi í sjö vikur. Íbúar Englands mega nú fara út úr húsi og hitta einn einstakling af öðru heimili utandyra. Þá eru ferðalög innan Englands leyfileg en ekki til Wales, Skotlands eða Norður-Írlands því þar er útgöngubann enn við lýði. Skotar þurfa að vísu ekki að bíða lengi því Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra skosku stjórnarinnar, hefur sagst ætla að aflétta útgöngubanni á föstudag.
Íbúar Danmerkur sem eru í fjarsambandi geta tekið gleði sína á ný, að því gefnu að makar þeirra séu frá Norðurlöndum eða Þýskalandi. Landamærin hafa verið opnuð fyrir maka danskra þegna frá þessum löndum en þó þarf að færa sönnur á sambandið, með framvísun ljósmynda, smáskilaboða eða tölvupósta. Enn hefur ekki verið ákveðið hvenær landamærin munu endanlega opna en ákvörðun verður tekin um það eigi síðar en 1 júní.
Þegar kemur að ferðatakmörkunum skera Eystrasaltsríkin sig nokkuð úr. Íbúar þeirra hafa mátt ferðast á milli landanna síðan 15. þessa mánaðar. Ferðafrelsið hefur verið tiltölulega óhindrað, að minnsta kosti í samanburði við önnur lönd álfunnar. Þeim einstaklingum sem vilja ferðast eru sett nokkur skilyrði. Þeir mega ekki hafa heimsótt önnur lönd síðastliðnar tvær vikur, þeir þurfa að vera ósmitaðir af kórónuveirunni auk þess sem þeir mega ekki hafa umgengist smitað fólk.