Guðni Th. Jóhannesson og Guðmundur Franklín Jónsson verða í kjöri til forseta Íslands. Þetta kemur fram í auglýsingu dómsmálaráðuneytisins í Lögbirtingablaðinu. RÚV greinir frá.
Frestur til að skila framboðum rann út síðasta föstudag.
Forsetakosningarnar fara fram laugardaginn 27. júní en kosning utan kjörfundar erlendis er þegar hafin.
Framboð til embættis forseta Íslands teljast ekki gild fyrr en frambjóðendur hafa skilað inn tilskildum fjölda meðmælenda, 1500 til 3000 á landsvísu, en ákveðið hlutfall undirskrifta þarf að berast úr hverjum landsfjórðungi.
Guðmundur Franklín ákvað að bjóða sig fram til forseta Íslands í apríl. Í ræðu sem hann flutti í gegnum Facebook kom fram að það væri gert eftir nokkra íhugun og mikla hvatningu. Framboð hans myndi í meginþáttum snúast um að efla forsetaembættið, nýta málskotsréttinn og leggja sitt af mörkum til að berjast gegn spillingu.
Hann bauð sig líka fram til forseta árið 2016 en dró þá framboð sitt til baka nokkrum vikum síðar og lýsti yfir stuðningi við Ólaf Ragnar Grímsson, sem hætti stuttlega við að hætta við að sækjast eftir endurkjöri. Ólafur Ragnar dró svo framboð sitt til baka og var ekki í framboði þá um sumarið.
Guðni Th. var kjörinn forseti árið 2916. Hann safnaði hámarksfjölda meðmæla fyrir framboð sitt til endurkjörs á nokkrum klukkutímum þann 8. maí síðastliðinn en hann óskaði eftir undirskriftum í gegnum samfélagsmiðla.