Samanlagðar greiðslur til launamanna sem settir voru á hlutabótaleiðina innan fiskveiða og fiskvinnslu voru 175,1 milljónir króna í mars og apríl. Þau tvö fyrirtæki sem settu flesta starfsmenn á leiðina innan þess geira eru nátengd. Annars vegar er um Samherja Íslands að ræða, sem setti 116 starfsmenn á hlutabætur, og hins vegar Útgerðarfélag Akureyringa, sem setti 129 manns á hana. Þessi tvö félög skáru sig úr þegar kemur að fjölda starfsmanna sjávarútvegsfyrirtækja sem settir voru á hlutabótaleiðina. Næst á eftir þeim var Jakob Valgeir ehf. með 60 manns. Raunar voru einungis fjögur sjávarútvegsfyrirtæki sem settu yfir 50 manns á hlutabótaleiðina. Það fjórða var Búlandstindur ehf., með 57 manns.
Bæði félögin eru í eigu Samherja hf., eins stærsta útgerðarfyrirtækis landsins. Samanlagt greiddi ríkissjóður 18 milljónir króna í mars og apríl vegna þátttöku í launagreiðslum starfsmanna þessara tveggja fyrirtækja, samkvæmt því sem fram kemur í úttekt Ríkisendurskoðunar á hlutabótaleiðinni, sem birt var fyrir helgi.
Þar segir að kórónuveirufaraldurinn hafi haft töluverð áhrif á sjávarútveg. „Fyrirtæki hafa bæði þurft að senda starfsfólk heim vegna sóttvarnaráðstafana en einnig hefur eftirspurn eftir fiskafurðum minnkað. Nokkur fyrirtæki í þessum flokki hafa þó boðað að þau muni endurgreiða ríkinu hlutabætur sem það greiddi starfsmönnum þess þar sem rekstur hefur gengið betur en útlit var fyrir.“ Á meðal þeirra fyrirtækja sem það hafa boðað er Samherji.
Eðlilegt að bera sjálf kostnaðinn
Kjarninn greindi frá því 10. apríl að Samherjasamstæðan, sem er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins sem átti 111 milljarða króna í eigið fé í lok árs 2018, hefði sett starfsmenn í fiskvinnslum Samherja og dótturfélagsins Útgerðarfélags Akureyringa á hlutabótaleiðina.
Stjórnendur Samherja Íslands og Útgerðarfélags Akureyrar hefðu talið „sjálfsagt að nýta hlutastarfaleiðina þar sem um var að ræða lögbundið úrræði stjórnvalda. Það var svo talið jafn eðlilegt að láta fyrirtækin sjálf bera kostnaðinn, af þeirri röskun sem varð á starfsemi þeirra, þegar ljóst var að reksturinn gekk betur en útlit var fyrir í upphafi faraldursins“.
Björgólfur Jóhannsson, annar forstjóri Samherja, sagði í sömu tilkynningu að betur hafi tekist að vinna úr þeirri stöðu sem var uppi í kjölfar heimsfaraldursins en útlit var fyrir í byrjun. „Veiðar, vinnsla og sala hafa gengið betur en menn þorðu að vona. Af þeim sökum hafa þessi fyrirtæki ákveðið að nýta ekki hlutabótaleiðina og greiða starfsfólki að fullu. Félögin munu því bera allan kostnað sem féll til vegna truflunar á starfseminni í þágu sóttvarna.“
Greinin á mörg hundruð milljarða í eigin fé
Sjávarútvegur er ein stærsta stoð íslensks atvinnulífs. Greinin í heild átti eigið fé upp á 276 milljarða króna í lok árs 2018 og viðbúið er að það hafi aukist í fyrra, sem var gjöfult ár í útvegi.
Frá hruni hefur eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækjanna batnað um 355 milljarða króna, en hún var neikvæð í lok árs 2008.
í lok árs 2008 var eiginfjárstaða geirans neikvæð en er nú, líkt og áður sagði jákvæð um 276 milljarða króna. Hún batnaði um 14 milljarða króna á árinu 2018.
Alls greiddu fyrirtækin sér arð upp á 12,3 milljarða króna í fyrra. Frá árinu 2010 hafa þau greitt 92,5 milljarða króna til eigenda sinna í arðgreiðslur.
Samanlagt hefur hagur sjávarútvegarins, því vænkast um 447,5 milljarða króna frá árinu 2008 og út síðasta ár, eða á einum áratug.