„Það er eitt sem ég rak mig á en það var að sú mynd sem dregin var upp í fjölmiðlum var oft mjög villandi eða beinlínis röng. Fólk var alltaf að hafa samband og ég þurfti alltaf að vera að útskýra að ég hefði það bara fínt. Þetta var í rauninni bara eins og ég hefði flutt til Namibíu í smá tíma.“
Þetta segir Arngrímur Brynjólfsson skipstjóri en viðtal við hann birtist á vefsíðu Samherja í dag. Hann fagnar í dag 68 ára afmæli. Hann komst í fjölmiðla þegar hann var skipstjóri á skipinu Heinaste, sem Samherji gerði út við strendur Namibíu, en hann var dæmdur í byrjun febrúar til að greiða sekt vegna ólöglegra veiða. Hann segist hafa lært ýmislegt eftir dvölina í Namibíu.
Arngrímur var handtekinn þann 20. nóvember síðastliðinn, rúmlega viku eftir að afhjúpandi umfjöllun Kveiks, Wikileaks og Al Jazeera, hafði birst, þar sem fjallað var um starfsemi Samherja í Namibíu, og meintar mútugreiðslur, skattaundanskot og peningaþvætti – en þessi mál eru nú til rannsóknar, meðal annars á Íslandi, í Noregi og einnig í Namibíu og Angóla.
Skipstjórinn játaði sök en málið snérist um það að skipið sem hann stýrði hefði verið við veiðar á hrygningarsvæði undan ströndum Namibíu. Arngrímur hafði verið í farbanni frá því málið kom upp, og þurfti að reiða fram um 850 þúsund krónur í tryggingu, þar til dómur féll í máli hans í byrjun febrúar.
Málið sjálft tóm steypa
Arngrímur segist í viðtalinu sem birtist í dag vera ánægður með að hafa haldið haus allan tímann og að hann hafi alltaf verið bjartsýnn. „Það var í raun ekki fyrr en ég kom heim til Íslands sem ég fór eitthvað að velta þessu fyrir mér í alvöru.“ Arngrímur segir að málið sjálft hafi verið tóm steypa enda hafi Heinaste aldrei veitt innan lokaðs svæðis. „Það var bara teiknuð ný lína í lögsögu Namibíu.“
Hann segist jafnframt hafa notað dvölina í Namibíu á uppbyggilegan hátt en hann notaði tækifærið og ferðaðist um landið ásamt Jóhönnu Magnúsdóttur, eiginkonu sinni, sem flaug út til hans. „Við fórum í langt ferðalag. Við settumst upp í bíl og keyrðum um Namibíu. Þetta land kom mér á óvart. Ég hélt nú ekki að ég gæti heillast af sandi en þetta var alveg ótrúlegt. Ég hafði fyrst einhverjar efasemdir en það eina sem maður þurfti að aðlagast var að þarna er vinstriumferð og maður náði nú fljótt tökum á henni. Þetta er eitt öruggasta landið í Afríku fyrir ferðamenn. Maður hefði kannski viljað vera þarna á öðrum forsendum en maður lét það ekkert trufla sig. Við gerðum bara gott úr þessu,“ segir hann.