Samtök ferðaþjónustunnar telja mögulegt að um 250 þúsund ferðamenn komi til landsins það sem eftir lifir árs. Hugsanlega gætu þeir orðið 300-350 þúsund ef allt fellur með greininni. Hagsmunir þjóðarbúsins af 250 þúsund ferðamönnum nema á bilinu 20-30 milljörðum og líklega getur sá fjöldi ferðafólks haldið uppi um 4.000 störfum í greininni.
Ef hins vegar er gert ráð fyrir að ferðavilji fólks í þeim vestrænu ríkjum sem hafa orðið illa úti í faraldrinum sé lítill, líkt og niðurstöður kannanna benda til, og aðeins einn af hverjum fjórum ríkisborgurum annarra ríkja skili sér til landsins þá gæti ferðamönnum fækkað úr 1,1 milljón á seinni hluta árs í fyrra í 180 þúsund í ár.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í greinargerð efnahags- og fjármálaráðuneytisins um efnahagsleg sjónarmið við losun ferðatakmarkana. Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fara að tillögu sóttvarnalæknis um opnun landamæra með skimun komufarþega frá og með 15. júní. Til grundvallar þeirri ákvörðun stjórnvalda liggur einnig mat á hagrænum þáttum.
En efnahagsleg áhrif losunar ferðatakmarkana eru hjúpuð mikilli óvissu. Fjöldi ferðamanna sem kemur hingað til lands ræðst ekki aðeins af ákvörðunum um sóttvarnir. Flugframboð, efnahagsaðstæður og ferðavilji íbúa helstu markaðssvæða eru þar ekki síður ráðandi þættir.
COVID-19 stefnir í að verða stærsta efnahagsáfall á heimsvísu í hartnær hundrað ár. Alþjóðastofnanir og aðrir greiningaraðilar áætla að efnahagsbatinn hefjist strax á næsta ári en að ferðaþjónusta verði meðal síðustu atvinnugreina til að jafna sig á áfallinu. Flugsamgöngur munu líklega ekki ná fyrri styrk fyrr en að nokkrum árum liðnum. Langur tími gæti því liðið þar til fjöldi ferðamanna á Íslandi kemst nálægt tveimur milljónum á ný, segir í greinargerðinni.
Að minnsta kosti 93 prósent jarðarbúa hafa síðustu mánuði búið við ferðatakmarkanir, þar af þrír milljarðar í löndum sem hafa alfarið lokað landamærum sínum. Yfirvöld mælast víðast hvar til þess að íbúar forðist óþörf ferðalög og á flestum stöðum er enn gerð krafa um tveggja vikna sóttkví við komu. Nú stefnir í að tilslakanir verði á þessum reglum innan Evrópu en meiri óvissa ríkir um þróun mála í Bandaríkjunum og Kína.
Miðað við þetta virðast mestar líkur á að ferðamenn frá Evrópu sæki Ísland heim á þessu ári en talsverð óvissa er um áhuga fólks á ferðalögum. Kannanir um ferðavilja í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu benda til þess að víða sé fólk hikandi við að leggja land undir fót eftir að faraldurinn hefur gengið yfir. Á það sér bæði fjárhagslegar og heilsufarslegar skýringar.
Þrír valkostir metnir
Í greinargerðinni er lagt mat á þrjá valkosti við tilslakanir á ferðatakmörkunum. Fyrsti kosturinn eru óbreyttar takmarkanir þar sem öllum nema þeim sem koma frá Færeyjum og Grænlandi er gert að sæta tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins. Því fyrirkomulagi þyrfti líklega að viðhalda í langan tíma til að sóttvarnarmarkmið næðust. Efnahagslegar afleiðingar slíkrar ráðstöfunar yrðu gríðarlegar.
Hinir tveir valkostirnir snúa að því að opna landamærin með eða án kvaða um skimun á Keflavíkurflugvelli eða vottorð. Margt virðist benda til þess að eftirspurn eftir ferðalögum til Íslands verði í lágmarki næstu vikur og jafnvel mánuði. Því er ekki augljóst að kvaðir um skimun hafi mikinn fælingarmátt til skamms tíma. Þær gætu hins vegar dregið verulega úr fjölda smita sem berast til landsins. Í greinargerðinni kemur einnig fram að rétt þyki að ferðamenn greiði sjálfir fyrir prófið.
Flestar hagspár gera ráð fyrir komu fárra ferðamanna það sem eftir lifir árs en mun fleirum á næsta ári. Spá Seðlabanka Íslands frá því í maí og sviðsmyndir fjármála- og efnahagsráðuneytisins gera t.d. ráð fyrir um milljón ferðamönnum árið 2021. Er þetta aðeins helmingur þeirra ferðamanna sem sóttu landið heim árið 2019 og sami fjöldi og árið 2014.
Opinberar hagspár eiga það einnig sammerkt að vænta verulegrar fjölgunar árið 2021, ekki síst frá 2. ársfjórðungi þess árs. „Ef landið verður áfram lokað ferðamönnum munu þær spár ekki rætast og vöxturinn verða mun þróttminni og atvinnuleysi hátt og viðvarandi,“ segir í greinargerðinni.
Vegna hás atvinnuleysis nú, sérstaklega meðal þeirra sem áður störfuðu í ferðaþjónustu, er mikilvægt að mati fjármálaráðuneytisins að ferðaþjónustan nái sér á strik sem fyrst, jafnvel þótt starfsemin verði aðeins brot af því sem áður var. „Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að nákvæm útfærsla losunar ferðatakmarkana liggi fyrir sem fyrst, því ella halda afbókanir áfram.“