Ef mannkyninu tekst ekki að gera róttækar breytingar í matvælaframleiðslu í kjölfar faraldurs COVID-19 og vegna loftslagsbreytinga er það búið að vera, segir náttúrufræðingurinn Jane Goodall. Hún segir faraldurinn tilkominn vegna rányrkju náttúruauðlinda þar sem skógar hafa verið ruddir, dýrategundum útrýmt og vistkerfi eyðilögð. Stórtækur landbúnaður nútímans væri jarðvegur fyrir sjúkdóma í dýrum sem svo smitast yfir í menn og valda skaða í samfélögum.
„Við höfum kallað þetta yfir okkur sjálf með algjörri vanvirðingu við dýr og umhverfið,“ segir Goodall sem í um sex áratugi hefur barist fyrir verndun náttúrunnar, m.a. simpansa sem hún bjó á meðal í mörg ár.
Nýja kórónuveiran, SARS CoV-2, fór úr leðurblökum í menn, mögulega með millihýsli, í tengslum við blautmarkað í Wuhan-borg í Kína. Á slíkum mörkuðum eru seld bæði lifandi og dauð dýr. „Vanvirðing okkar við villt dýr og vanvirðing okkar við búfénað hefur skapað aðstæður fyrir sjúkdóma að berast í manneskjur.“
Goodall hélt erindi á málþingi samtakanna Compassion in World Farming sem fram fór á netinu í vikunni. Í máli hennar kom fram að nauðsynlegt væri að hverfa frá stórtækum verksmiðjubúskap. Minnti hún á að sýklalyfjaónæmi, sem er stórkostleg heilsufarsógn, tengist verksmiðjubúskap. „Ef við breytum ekki okkar háttum þá er úti um okkur. Við getum ekki haldið svona áfram mikið lengur.“
Fátækt er hættuleg umhverfinu því fátækt fólk í dreifbýli á sér stundum engar aðrar bjargir en að ganga á auðlindir með ósjálfbærum hætti, t.d. að ryðja skóga. Á þéttbýlli svæðum verður fátækt til þess að fólk neyðist til að kaupa ódýrustu matvöru sem til er – sama hvaða umhverfisspjöllum og þjáningum framleiðsla hennar útheimtir. Efnishyggja þeirra sem meira fé hafa svo á milli handanna hefur leitt til gríðarlegrar ofneyslu og sóunar. Goodall segir að hinir efnameiri ættu að taka ábyrgð á eigin neyslu. „Við verðum að hætta að kaupa vörurnar þeirra,“ sagði hún um fyrirtæki sem stunda verksmiðjubúskap og rányrkju.
"Every single day we make an impact on the planet, we just have to choose what kind of impact we want to make"
— Compassion in World Farming (@ciwf) June 4, 2020
So honored to hear @JaneGoodallInst speak at our webinar ‘Pandemics, wildlife & intensive animal farming'. Find out more & watch a recording. ⬇️https://t.co/1EDdJqF9qh
„Við erum komin að tímamótum í sambandi okkar við náttúruna,“ sagði hún og bætti við að nú gæfist lítill gluggi til að gera róttækar breytingar svo koma megi í veg fyrir frekari hörmungar. „Ein sú lexía sem við höfum lært í þessu ástandi er sú að við verðum að breyta hegðun okkar. Vísindamenn hafa varað við því að til að komast hjá því að hættuástand skapist aftur í framtíðinni verðum við að gera róttækar breytingar á mataræði okkar í átt að plönturíku fæði. Vegna dýranna, jarðarinnar og heilsu barnanna okkar.“
Rannsókn FAIRR, samtaka alþjóðlegra fjárfesta, á tengslum stórtæks landbúnaðar og farsótta, leiddi í ljós að yfir 70 prósent stærstu kjöt-, fisk- og mjólkurframleiðenda í heiminum eiga á hættu að fóstra vísa að faröldrum framtíðarinnar. Það skýrist af slökum öryggiskröfum, of mikils þéttleika dýra og ofnotkunar á sýklalyfjum.