Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, spyr á Facebook-síðu sinni hvort Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður VG – sem hafi viljað kenna sig við jafnrétti og femínisma – ætli að láta það líðast að menntamálaráðherra í ríkisstjórn hennar brjóti jafnréttislög.
Greint var frá því í fyrradag að Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefði brotið jafnréttislög við skipun Páls Magnússonar í embætti ráðuneytisstjóra í fyrra.
„Hvenær hættir maður að verða hissa á sérhagsmunagæslunni í pólitík? Svarið er einfalt: Aldrei!“ skrifar Inga.
Inga segir að Sigríður Á. Anderssen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, hafi verið „látin taka pokann sinn“ úr ráðuneyti dómsmála fyrir að hafa brotið lög varðandi ráðningar dómara við Landsrétt. Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra, hafi líka þurft að yfirgefa sinn ráðherrastól vegna lekamálsins svokallaða. Inga spyr hvort einhver sýnilegur eðlismunur sé á þessu máli um viðukennt brot ráðherra á jafnréttislöggjöfinni, sem gæti mögulega slegið skjaldborg um menntamálaráðherrann.
Fram kom í fréttum í dag að Lilja hefði sagt að hún fengi alltaf færasta og öflugasta fólkið til liðs við sig. Inga gefur lítið fyrir það og segir: „Nei, framsóknarmenn eru ráðnir af framsóknarráðherranum, það er ekki flóknara en það. Sama gamla spillingarkerfið blómstrar hér sem aldrei fyrr. Framsóknarmaður ráðinn sem formaður fjömiðlanefndar þrátt fyrir að hæfari einstaklingur hafi sótt um starfið. Sami formaður fjömiðlanefndar hefur skreytt stjórnarformennsku 8 nefnda í boði Framsóknarflokksins.“
Ætlar forsætisráðherra og formaður VG sem hefur viljað kenna sig við jafnrétti og femínisma, að láta það líðast að...
Posted by Inga Sæland on Friday, June 5, 2020