Namibíska ríkisstjórnin ætlar að byrja að bjóða upp aflaheimildir sem áður var úthlutað til ríkisútgerðarinnar Fishcor. Þetta er haft eftir Albert Kawana sjávarútvegsráðherra landsins í dagblaðinu Namibian í dag.
Kawana segir að uppboðsleiðin sem namibísk yfirvöld ætla að fara muni tryggja ríkinu auknar tekjur til þess að fjármagna samfélagsleg verkefni og auka gagnsæi við úthlutun aflaheimilda.
Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra landsins, sem nú situr ásamt sex öðrum í gæsluvarðhaldi vegna ásakana um spillingu og mútuþægni í tengslum við úthlutun kvóta, kom fyrra fyrirkomulagi á árið 2014. Alls úthlutaði ráðherrann 360 þúsund tonnum af hrossamakrílkvóta til Fishcor frá 2014 og fram á síðasta ár.
Hluti þessa kvóta var seldur til félags í eigu Samherja og grunur leikur á að íslenska fyrirtækið hafi greitt mútur til að fá þann kvóta á frá Fishcor á lægra verði en eðlilegt hefði verið, eins og fram kom í umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks um Samherjaskjölin í nóvember í fyrra.
Með Esau í gæsluvarðhaldi er meðal annars James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður Fishcor. Samanlagt eru þeir sjö sem handteknir hafa verið vegna málsins ákærðir fyrir að hafa þegið 103,6 milljónir namibískra dollara, jafnvirði yfir 800 milljóna íslenskra króna, í greiðslur fyrir að hafa tryggt félögum tengdum Samherja umræddan hrossamakrílskvóta.