Guðrún Johnsen hagfræðingur hefur verið ráðin í hlutastarf sem efnahagsráðgjafi VR. Þar mun hún vera formanni, framkvæmdastjóra og stjórn þessa stærsta stéttarfélags landsins „til ráðgjafar í rannsóknum og stefnumótun tengdum kjaramálum.“
Guðrún hefur setið í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna fyrir hönd VR frá því í ágúst í fyrra og í tilkynningu segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, það mikinn feng fyrir starf og baráttu VR að hafa fengið Guðrúnu til liðs við félagið.
Guðrún á að baki um 20 ára feril sem háskólakennari við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjaví, og Oslóarháskóla og sem rannsakandi á sviði fjármála og efnahagsmála hjá alþjóðlegum stofnunum. Hún hefur lokið doktorsprófi í hagfræði frá ENS í Frakklandi og meistaragráðum í bæði tölfræði og hagnýtri hagfræði frá University of Michigan. Í tilkynningunni segir að hún sé „ein fárra hagfræðinga sem frá árinu 2005 varaði við skuldakreppunni miklu sem raungerðist árið 2008 og frá 2009-2010 starfaði Guðrún hjá Rannsóknarnefnd Alþingis, en eftir hana liggja margar greinar, bókarkaflar og bók um fjármálakreppuna miklu.“
Í minniblaði sem Bankasýsla ríkisins skrifaði Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, vegna þeirrar sölu, sem stofnunin mat að ríkissjóður hafi tapað 2,6 milljörðum króna á, kom fram að degi eftir að Guðrún lagði fram tillöguna hafi henni verið tjáð að „breytingar væru fyrirhugaðar á stjórn bankans og [hennar] aðkomu væri ekki óskað“.
Ragnar Þór, formaður VR, hefur einnig verið mikill áhugamaður um að fram fari rannsókn á sölunni á Bakkavör, en Lífeyrissjóður verzlunarmanna var á meðal þeirra sem seldu. Ragnar Þór hefur opinberlega sagt að sú sala gæti verið eitt stærsta fjársvikamál Íslandssögunnar og farið samhliða fram á opinbera rannsókn á hvort lífeyrissjóðir hafi verið blekktir.
Guðrún skrifar reglulega í Vísbendingu, vikulegt rit um efnahagsmál, viðskipti og nýsköpun sem Kjarninn miðlar gefa út.