Vodafone, sem tilheyrir Sýn-samstæðunni, auglýsir í dag í helstu prentmiðlum landsins að fyrirtækið bjóði nú aðgang að Símanum Sport, sem á réttinn af sýningu á enska boltanum, á eitt þúsund krónur út þetta keppnistímabili. Auk þess vonast Vodafone til að geta selt þessa vöru samkeppnisaðila síns á sama verði á næsta keppnistímabili.
Forsaga málsins er sú að í lok síðasta mánaðar greindi Samkeppniseftirlitið frá því að Síminn hefði brotið gegn skilyrðum í sáttum sem fyrirtækið hefur á undanförnum árum gert við eftirliti.
Í ákvörðuninni kom fram að mikill verðmunur og ólík viðskiptakjör við sölu á Enska boltanum á Símanum Sport, eftir því hvort hann er boðinn innan Heimilispakka Símans, þar sem hann var felldur inn samhliða eitt þúsund króna hækkun á verði pakkans (alls sex þúsund krónur), eða einn og sér í stakri áskrift, þar sem hann kostar 4.500 krónur, hafi brotið gegn þeim skilyrðum sem hvíla á fyrirtækinu. Taldi Samkeppniseftirlitið að brotin séu alvarleg og sektaði Símann vegna þessa um 500 milljónir króna. Síminn hefur ákveðið að áfrýja ákvörðuninni.
Ákvörðun Vodafone um að bjóða þessa verðmætu vöru samkeppnisaðila síns á eitt þúsund krónur á mánuði kemur í kjölfar ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins um brot Símans. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að verð Símans á þjónustunni sem hluti af eigin vöruframboði sé mun lægra en núgildandi heildsöluverð til Vodafone. „Hefur Samkeppniseftirlitið komist að þeirri niðurstöðu að þetta leggi stein í götu keppinauta Símans. Af þeim sökum hefur Vodafone óskað eftir því að Síminn breyti heildsöluverðlagningu sinni þannig að unnt verði að bjóða neytendum Enska boltann á kr. 1000 á mánuði einnig á næsta keppnistímabili án þess að umtalsvert tap hljótist af.“
Enski boltinn fer aftur af stað innan skamms eftir að hafa legið í dvala frá því snemma í mars vegna COVID-19. Síminn ákvað að fella niður áskriftargjöld þeirra sem keyptu Símann Sport beint á meðan að sú staða var uppi en verð á Heimilispakkanum, sem var hækkað úr fimm þúsund krónum í sex þúsund krónur á mánuði í fyrra þegar áskrift af Símanum Sport var felld inn í hann, breyttist ekki. Langflestir áskrifendur að Símanum Sport eru með áskrift í gegnum Heimilispakkann.
Eitt fyrirtæki eykur tekjur hratt, hitt upplifir mikinn samdrátt
Hörð barátta hefur átt sér stað á sjónvarpsmarkaði milli þeirra fjarskiptafyrirtækja sem keppa á honum á undanförnum árum. Síminn hefur bætt verulega í þá þjónustu sem hann selur undir hatti Sjónvarpi Símans og Sýn keypti í lok árs 2017 fjölda fjölmiðla, meðan annars Stöð 2, Stöð 2 Sport, Vísi, Bylgjuna, FM957 og Xið 977 fyrir tæplega átta milljarða króna.
Hjá Símanum voru rekstrartekjur af sjónvarpsþjónustu drifkrafturinn í auknum tekjum fyrirtækisins í fyrra, eða 75 prósent þeirra. Alls jukust tekjurnar af sjónvarpsþjónustunni um 818 milljónir króna á einu ári. Þar skiptir meðal annars miklu að Síminn náði til sín sýningarréttinum að enska boltanum af Sýn, sem á Vodafone.
Á sama tíma hefur fjölmiðlarekstur Sýnar gengið verr. Tekjur fyrirtækisins vegna hans drógust saman um 446 milljónir króna á árinu 2019 og í upphafi yfirstandandi árs færði Sýn niður viðskiptavild sem skapaðist við kaup á fjölmiðlunum um 2,5 milljarða króna.Á fyrsta ársfjórðungi 2020 hélt Síminn áfram að hagnast á sjónvarpsþjónustu, en tekjur hans á fyrstu þremur mánuðum ársins vegna hennar voru 1.583 milljónir króna og 252 milljónum króna meira en á sama tímabili í fyrra. Alls er um að ræða tekjuaukningu um 18,9 prósent.
Á sama ársfjórðungi drógust tekjur Sýnar vegna fjölmiðlareksturs saman um 229 milljónir króna, eða ellefu prósent, og voru 1.943 milljónir króna.
Viðskiptavinum í „Heimilispakka“ fjölgaði um 4.250
Áskriftarsala að Símanum Sport, sem sýnir leiki úr ensku úrvalsdeildinni, hófst í fyrrasumar. Stök áskrift var seld á 4.500 krónur en á sama tíma var hins vegar greint frá því að allir áskrifendur að Sjónvarpi Símans Premium, sem voru þá þegar 35 til 40 þúsund, myndu fá aðgang að enska boltanum. Um leið var mánaðarverðið fyrir þá þjónustu hækkað úr fimm þúsund krónum í sex þúsund krónur. Á ársgrundvelli þýðir það að tekjur Símans vegna þeirra breytinga jukust um 420 til 480 milljónir króna áður en að búið var að selja eina einustu áskrift.
Í ljósi þess að nær ómögulegt er að vera með Sjónvarp Símans án þess að kaupa internetþjónustu að Símanum þá er stærsti viðskiptavinahópur fyrirtækisins með svokallaðan „Heimilispakka“, sem inniheldur internet, heimasíma, IPTV aðgang (myndlykil), Premium-pakkann og nokkrar erlendrar stöðvar.
Á milli þess tíma sem Síminn keypti réttinn að enska boltanum og þess tíma sem áskrift að honum var bætt inn í Premium áskriftarleiðina var verðmiðinn á Heimilispakkanum hækkaður tvívegis, um samtals eitt þúsund krónur, annars vegar í byrjun mars 2019 og hins vegar í byrjun ágúst 2019. Langflestir Premium áskrifendur eru með þá áskrift í gegnum Heimilispakkann.
Viðskiptavinum Símans í þeim fjölgaði um 4.250 í fyrra. Um helmingur þeirrar fjölgunar kom á fjórða ársfjórðungi, þegar áhrifin af tilurð Símans Sport voru að fullu að koma fram. Þeim sem keyptu internet af félaginu fjölgaði einnig um 1.700 á síðasta ári.
Brotin til þess fallin að styrkja stöðu Símans á sjónvarpsmarkaði
Áðurnefnd rannsókn Samkeppniseftirlitsins leiddi í ljós að þorri viðskiptavina Símans, þ.e. nærri því 99 prósent þeirra sem kaupa Enska boltann/Símann Sport á kerfum fyrirtækisins, hefðu keypt sjónvarpsefnið í heildarþjónustu, þ.e. með Heimilispakkanum og/eða Sjónvarpi Símans Premium í stað þess að kaupa þjónustuna eina og sér.
Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins var að verðlagning Símans á Enska boltanum sem hluta af Heimilispakkanum hafi lagt stein í götu keppinauta fyrirtækisins og takmarkað möguleika þeirra til að laða til sín viðskiptavini.
Framangreind brot voru, samkvæmt eftirlitinu, til þess fallin að styrkja stöðu Símans á sjónvarpsmarkaði og efla enn frekar stöðu fyrirtækisins á fjarskiptamörkuðum þar sem staða Símans er sterk fyrir.
Samkeppniseftirlitið taldi í niðurstöðu sinni, sem birt var í lok maí, að framangreind brot væru alvarleg og til þess fallin að skaða hagsmuni almennings til lengri tíma, á mörkuðum sem skipta neytendur og efnahagslífið miklu máli. Því væru óhjákvæmilegt að leggja sektir á Símann vegna brotanna og sérstaklega tiltekið að það væri áhyggjuefni að Síminn hefði á ný gerst brotlegur með alvarlegum hætti.
Í tilkynningunni sem Samkeppniseftirlitið sendi frá sér vegna niðurstöðunnar sagði að það muni í framhaldinu taka til skoðunar hvort efni séu til þess að gera breytingar á þeim skilyrðum sem nú hvíla á Símanum og tryggja eiga virka samkeppni. Hafi Síminn jafnframt óskað eftir samræðum um endurskoðun skilyrðanna.
Hægt er að lesa ákvörðun eftirlitsins í heild sinni hér.