Félag prófessora við ríkisháskóla (FPR) mun ræða rangfærslur fjármála- og efnahagsráðuneytisins um Þorvald Gylfason hagfræðiprófessor og þá afstöðu ráðuneytisins að hann þætti of pólitískur til að Ísland gæti stutt að hann fengi ráðningu í starf ritstjóra norræns fræðatímarits, á næsta stjórnarfundi sínum 16. júní.
Þetta segir Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og formaður FPR, í svari við fyrirspurn Kjarnans. Hann segir málið ekki verða sérstakan fundarlið á væntanlegum stjórnarfundi, en segir að það verði rætt meðal annarra mála og bætir við að um niðurstöðu þeirrar umræðu sé ekkert hægt að segja á þessu stigi.
Félag prófessora við ríkisháskóla hefur meðal annars það skilgreinda hlutverk að vera málsvari félagsmanna gagnvart yfirvöldum háskólanna og öðrum stjórnvöldum og sneri fyrirspurn Kjarnans að því hvaða augum FPR liti mál Þorvalds.
Þónokkrir íslenskir fræðimenn innanlands og erlendis hafa gagnrýnt framgöngu fjármála- og efnahagsráðuneytisins gagnvart Þorvaldi Gylfasyni í þessu máli.
Ólafur Margeirsson, doktor í hagfræði sem starfar í Sviss, sagði til dæmis á Facebook í gær að hann hefði sjaldan verið eins feginn að vera óháður íslenskum stjórnmálamönnum um atvinnu sér til lifibrauðs.
Sjaldan hef ég verið eins feginn að vera óháður íslenskum stjórnmálamönnum um atvinnu mér til lifibrauðs eins og ég er í dag. Baráttukveðjur til Þorvaldur Gylfason (ef.)!
Posted by Ólafur Margeirsson on Tuesday, June 9, 2020
Þá ritaði Gauti B. Eggertsson, hagfræðiprófessor við Brown-háskóla í Bandaríkjunum, að frásögnin af máli Þorvalds rifjaði upp fyrir honum þá „köfnunartilfinningu“ sem hann hafði stundum er hann bjó á Íslandi fyrir rúmum tveimur áratugum „og horfði uppá hvernig ráðið var í hinar ýmsu stöður í þjóðfélaginu.“
Bjarni Már Magnússon lagaprófessor við Háskólann í Reykjavík deildi einnig fyrstu frétt Kjarnans af málinu á Twitter í gær og sagði að fyrirsögnin á henni mætti vera: „Sturlun í Stjórnarráðinu“.
https://t.co/qBbitTXaMf Fyrirsögnin á þessari frétt mætti vera: Sturlun í Stjórnarráðinu.
— Bjarni Már Magnússon (@BjarniMM) June 9, 2020