Fermetraverð nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um tæp fjögur prósent á milli mælinga í mars og apríl. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um húsnæðismarkaðinn. Lækkun á verði eldri íbúða nam tæpum tveimur prósentum.
Lækkun á fermetraverði nýrra íbúða var enn meiri í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, um níu prósent. Fermetraverð eldri íbúða þar stóð hins vegar í stað. Á landsbyggðinni lækkaði verð nýrra íbúða um tvö prósent en verð eldri íbúða hækkaði um 5,5 prósent.
Á síðustu tólf mánuðum hefur íbúðaverð hækkað um 3,4 prósent á höfuðborgarsvæðinu og hækkun á raunverði nemur því um einu prósenti. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins hefur verðið hækkað um 1,4 prósent sem þýðir að raunverðið hefur lækkað um eitt prósent. Á landsbyggðinni hefur íbúðaverð hækkað um 2,5 prósent og raunverð því staðið í stað.
Þegar tólf mánaða tímabil er skoðað sést að fermetraverð nýbyggðra íbúða á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað hraðar heldur en eldri íbúða. Verðhækkunin á tímabilinu nemur átta prósentum á nýjum íbúðum en 2,5 prósentum á eldri íbúðum. Í nágrannasveitarfélögunum hækkaði fermetraverð nýbyggðra íbúða um 3,5 prósent en eldri íbúða um 7 prósent.
Á síðustu tólf mánuðum varð mest breyting á verði eldri íbúða á landsbyggðinni, fermetraverðið hefur hækkað um tíu prósent á tímabilinu. Fermetraverð eldri íbúða á landsbyggðinni lækkaði um 6,5 prósent á sama tíma.
Þróun meðalstærðar hefur áhrif á verðmun
Í skýrslunni segir að munur á fermetraverði nýrra íbúða og annarra íbúða hafi verið vaxandi undanfarin þrjú ár. Í upphafi árs 2017 munaði sex prósentum á fermetraverði nýrra íbúða og eldri íbúða en nú mælist munurinn 19 prósent. Þar gæti minnkandi stærð íbúða haft áhrif.
„Þróun á meðalstærð nýbyggðra íbúða kann að útskýra að einhverju leyti hvers vegna fermetraverð þeirra hefur hækkað eins og raun ber vitni. Fermetraverð íbúða er mismunandi eftir stærð og er að meðaltali hærra fyrir minni íbúðir. Á höfuðborgarsvæðinu hefur meðalstærð nýrra íbúða farið úr því að vera um 120 fm árin 2013 2017 í tæplega 100 fm á undanförnum þremur árum.“
Svipaða sögu er að segja af þróuninni á landsbyggðinni. Meðalstærð íbúða hefur farið úr 120 fermetrum í tæplega 80. Verðmunur á nýbyggðum íbúðum og eldri íbúðum mælist meiri á landsbyggðinni heldur en á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þess.