Sérfræðingur finnska fjármálaráðuneytisins, sem situr fyrir hönd þess í norrænum stýrihópi vegna útgáfu fræðatímaritsins Nordic Economic Policy Review (NEPR), segir að hann myndi ekki leyfa stjórnmálamönnum að hafa afskipti af stjórnun ritsins.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í svörum Finnans, Markku Stenborg, við fyrirspurn Kjarnans sem einnig hefur verið send á fulltrúa hinna Norðurlandanna í stýrihópnum.
Hann segist einn vera í forsvari fyrir Finnland á þessum vettvangi og að hann upplifi það sem svo að dómgreind hans sé treyst innan ráðuneytisins og hann vilji ekki „angra neinn“ annan í ráðuneytinu með verkefnunum sem honum eru falin.
„Ég myndi heldur ekki láta stjórnmálamennina skipta sér af (e. interfere with) stjórnun NEPR. Þeir geta sagt sitt álit á ýmsum pólitískum vettvangi, eða mögulega í nefndinni sem starfar fyrir ofan NEPR,“ segir Stenborg.
„Ég persónulega myndi aldrei mismuna neinum á grundvelli hans eða hennar pólitísku eða annarra sambærilegra skoðana. Að mínu mati er helsta hæfnisviðmiðið að ritstjórinn sé fær um að finna réttu rannsóknateymin og leiða skrif þeirra, svo úr verði hágæða gagnreyndar greinar sem geti nýst við stefnumótun,“ segir Stenborg, sem segir jafnframt að Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor hafi litið út fyrir að vera mjög hæfur kandídat í starfið.
Segist ekki enn vita af hverju Ísland lagðist gegn Þorvaldi
Blaðamaður spurði hvað honum þætti um þá afstöðu sem Ísland setti fram innan stýrihópsins til mögulegrar ráðningar Þorvalds í stöðuna. Markku segist ekki enn vita af hverju Ísland hafi lagst gegn ráðningu hans.
„Ég vil ekki geta mér til um það sem lá að baki. Ég man að þau nefndu að hann væri virkur í stjórnarandstöðu og hefði eitt sinn leitt stjórnmálaflokk.“
Markku segir að honum rámi líka í umræður í stýrihópnum, þar sem fallist hafi verið á að „virkur stjórnmálamaður væri ef til vill ekki best til þess fallinn að vera ritstjóri,“ í ljósi þess að ritinu sé ætlað að dreifa og túlka fræðilegar greinar á sviði rannsókna og stefnumótunar.
„Í umræðunum tókum við skýrt fram að við myndum ekki mismuna neinum á grundvelli, t.d., hans eða hennar pólitísku viðhorfum. Á hinn boginn, þá vildum við ná samhljóða ákvörðun, ef það væri mögulegt,“ segir Stenborg.
Ísland lagði til konu í starfið
Blaðamaður spurði hann einnig að því hvort það væri rétt að fulltrúar íslenskar ráðuneytisins hefðu lagt fram tillögu um að ráða konu í stöðuna, eins og Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sagði á fimmtudag. Það segir hann alveg hárrétt.
„Íslensk kona sem starfar í Bandaríkjunum var um stund til umhugsunar, en við töldum hana ekki fullkominn kandídat þar sem hún býr langt í burtu og er sennilega ekki með næga þekkingu á norræna rannsóknasviðinu, er með fremur þrönga fræðareynslu og stuttan lista ritrýndra greina,“ segir Stenborg.
Telur fyrirvara um samþykki hafa verið á starfstilboði til Þorvalds
Í lokin þá svarar hann spurningu blaðamanns um það af hverju hann telji að Þorvaldi Gylfasyni hafi verið boðið starf ritstjóra, áður en samþykki stýrihópsins lá fyrir.
Stenborg segir að hann hafi ekki túlkað það svo að Þorvaldur hafi fengið fyrirvaralaust starfstilboð, heldur hafi hann tekið því sem svo, er hann heyrði af því að Þorvaldur væri til í taka að sér starfið, að tilboðið til hans verið háð samþykki stýrihópsins.
Stenborg fékk meldingu frá Anders Hedberg, starfsmanni Norrænu ráðherranefndarinnar, um að Þorvaldur væri klár í að taka að sér starfið og bað Hedberg finnska ráðuneytismanninn um að koma þeim boðum áfram til stýrihópsins, sem hann gerði svo.