Þolinmæði er mikilvægasti farangur þeirra sem ætla sér að ferðast innanlands á rafbíl í sumar. Þetta er mat viðmælanda Kjarnans um málið. Búast má við því að í sumar verði meira álag á þeim hleðslustöðvum sem staðsettar eru við vinsælustu áningarstaðina við þjóðvegi landsins, nú þegar Íslendingar ætla í auknum mæli að ferðast innanlands.
Rafbílum í flota landsmanna hefur fjölgað ört á síðustu árum. Á vef Orku náttúrunnar kemur fram að í maí hafi heildarfjöldi rafbíla á landinu verið alls 4.925 og heildarfjöldi tengiltvinnbíla verið 8.636. Hlutdeild þessara bíla í flotanum kann að virðast lítil, en hún hefur vaxið hratt. Þegar fyrstu hleðslustöðvar ON voru teknar í notkun árið 2014 voru innan við 100 raf- eða tengiltvinnbílar á götum landsins.
Aukningin sést hve best í tölum um nýskráningar fólksbíla sem finna má á vef Bílgreinasambandsins. Það sem af er ári eru alls 45 prósent af nýskráðum bílum raf- eða tengiltvinnbílar. Til samanburðar eru 40 prósent af nýskráningum bensín eða dísilbílar. Þetta er töluverð breyting frá fyrra ári, þá voru bensín og dísilbílar alls rúmlega 70 prósent af nýskráðum bílum.
Hleðslustöðvanetið hefur einnig vaxið jafnt og þétt á síðustu árum. Í nýútkominni Árbók Bílgreinasambandsins segir að um 140 hleðslustöðvar hafi verið í notkun á landinu í loks árs 2019. Þar kemur einnig fram að á Íslandi séu alls 186 hleðslustöðvar opnar almenningi. Þær tölur eru fengnar af vefsíðunni PlugShare entekið er fram að óvíst sé hver afköst þessara stöðva eru og hvort að þær séu háðar opnunartíma. Í nóvember síðastliðnum úthlutaði Orkusjóður styrkjum til uppsetningar á 43 hraðhleðslustöðvum vítt og breitt um landið og vinna við þá uppsetningu stendur nú yfir.
Vill hleðslumiðstöðvar með mörgum hleðslustöðvum
„Afstaða rafbílasambandsins er sú að það sem þurfi að gera er að koma upp hleðslumiðstöðum. Í staðinn fyrir að það sé ein og ein stöð hingað og þangað þá sé reynt að fjölga stöðvum per stað. Ef þú hefur prófað að ferðast um landið á rafbíl þá kemstu að því að það er aðalvandamálið að finna lausa stöð,“ segir Jóhann G. Ólafsson, formaður Rafbílasambands Íslands, í samtali við Kjarnann.
Jóhann bendir samt sem áður á að fjöldi rafbíla um hverja stöð hér á landi sé nokkuð minni miðað við lönd sem við berum okkur saman við. Þar að auki sé erfitt fyrir þau fyrirtæki sem halda úti hleðslustöðvum að réttlæta fjárfestingu í stöðvum þar sem notkunin er ekki mikil alla jafna. Við hleðslustöðvar á vinsælum ferðaleiðum geti myndast biðraðir á helgum þegar fólk er á faraldsfæti en þess á milli geti notkunin verið óveruleg.
Hvítasunnuhelgin stærsta hleðsluhelgin frá upphafi
Undanfarnar helgar, fyrstu ferðahelgar sumarsins, hafa verið nokkurs konar generalprufa fyrir sumarið sem er framundan. Hafrún Þorvaldsdóttir, verkefnastjóri hleðslunets ON, segir að met í notkun á hleðslunetinu hafi verið sett föstudaginn fyrir Hvítasunnu og að það met hafi svo aftur verið slegið degi seinna. „Þannig að þetta var lang, lang stærsta hleðsluhelgi frá upphafi uppbyggingar innviða til orkuskipta á Íslandi,“ Segir Hafrún.
Hún segir mest vera að gera á föstudags- og sunnudagseftirmiðdögum. Þrátt fyrir að mikil eftirspurn eftir hleðslu sé á þessum tímum er samanburðurinn við önnur lönd okkur hagstæður að mati Hafrúnar. „Auðvitað eru álagstímar þar sem geta myndast biðraðir en það er sjaldgæft. Þetta er með því langbesta sem gerist í heiminum. Í Noregi eru mikli stærri biðraðir og fólk bara fer í biðröð.“
Mælir með að stoppa oftar og skemur
En hvaða ráð getur Hafrún gefið fólki sem er að ferðast um landið á rafbíl? „Kortleggja ferðina og skipuleggja ferðina miðað við hvar hleðslustöðvar eru. Þær eru með sirka 100 kílómetra millibili,“ segir Hafrún. Þá segir hún það mikilvægt að fólk kynni sér hvernig hleðsluferlið í bílunum virkar. Rafhlöðurnar hlaða sig mishratt eftir því hver staðan á þeim er. Þannig að það getur tekið jafn langan tíma að hlaða rafhlöðu úr tíu prósentum upp í 80 prósent líkt og það tekur að hlaða rafhlöðuna úr 80 prósentum upp í 100 prósent.
Það geti því borgað sig að stoppa oftar og í skemmri tíma. Ætli fólk hins vegar að fullhlaða rafhlöðuna geti það borgað sig að skipta úr hraðhleðslu yfir í venjulega AC hleðslu þegar rafhlaðan er komin upp í um 80 prósent. Þá eru rafhlöðurnar að taka jafn mikið út úr AC hleðslu líkt og úr hraðhleðslu. Tímagjaldið er lægra í AC hleðslu en notandi greiðir bæði fyrir orkuna sem og fyrir þann tíma sem hann er tengdur hleðslustöðinni.
Hleðslan megi ekki vera kvöð
Spurður um ráð fyrir rafbílaeigendur sem eru að ferðast um landið í sumar, kannski í fyrsta sinn á rafbíl, segir Jóhann hjá Rafbílasambandinu að mikilvægt sé að skipuleggja sig vel og að sýna þolinmæði. Hann mælir einnig með því að fólk hugi að afþreyingu til að hafa ofan af fyrir sér, og sérstaklega börnunum, ef það gerist að mikil bið er eftir hleðslu.
Hann bendir á að það sé ekkert nauðsynlegt að einblína á hraðhleðslustöðvarnar við þjóðveginn. Það geti verið sniðugt að skoða fyrir fram hvaða aðstaða sé í grennd við hleðslustöð til þess að geta nýtt tímann á meðan bíllinn hleður sig. Mikilvægt sé að fólk líti ekki á það sem kvöð að þurfa að hlaða bílinn.
Hann nefnir sem dæmi að sniðugt geti verið að setja bílinn í venjulega 22 kílóvatta hæghleðslu og nýta tímann sem það tekur að hlaða til að fara í sund eða skoða sig um. „Það er ýmislegt í boði. Það eru fleiri stöðvar þarna heldur en fólk kannski áttar sig á en hraðhleðslustöðvarnar eru frekar fáar enn þá,“ segir hann að lokum.