Mikill viðbúnaður er nú í Peking vegna ótta um að kórónuveirufaraldurinn nái sér aftur á strik í borginni. Fjölda flugferða hefur verið aflýst, skólum hefur verið lokað sem og íbúðarhverfum að því er fram kemur í frétt Reuters.
Í gær greindist 31 smitaður af veirunni og tala smitaðra síðastliðna sex daga komin upp í 137. Ekki hafa jafn margir greinst með veiruna þar í borg í fjóra mánuði en alls hafa rúmlega 350 þúsund íbúar verið skimaðir síðan á sunnudag.
Talið er að útbreiðslu veirunnar megi rekja til Xinfadi matarmarkaðarins sem staðsettur er í suðvesturhluta Peking. Markaðurinn er sá stærsti fyrir landbúnaðarafurðir í kínversku höfuðborginni, þar er höndlað með þúsundir tonna af grænmeti, ávöxtum og kjöti á degi hverjum. Markaðurinn hefur verið lokaður síðan á laugardag.
Rúmlega helmingur fluga til og frá borginni hafa verið felld niður, flest þeirra innanlandsflug. Þar að auki er leigubílstjórum meinað að aka úr borginni og mörgum rútu- og lestarferðum hefur verið aflýst.
27 hverfi hafa verið skilgreind sem miðlungs hættusvæði. Íbúar þeirra þurfa að láta mæla hita sinn á sérstökum eftirlitsstöðvum þeir fara úr hverfinu eða snúa aftur í hverfið. Þá hefur hverfið í næsta nágrenni við Xinfadi markaðinn verið skilgreint sem algjört áhættusvæði og allir íbúar skyldaðir til að vera í sóttkví.
Yfirvöld óttast enn frekari útbreiðslu veirunnar en talið er að smit sem greinst hafa í héruðunum Hebei, Liaoning, Sichuan og Zhejiang megi rekja til Xinfadi markaðarins.
Rétt rúmlega vika er liðin frá því að slakað var á aðgerðum sem gripið var til í borginni vegna kórónuveirunnar. En nú hafa margir íbúar áhyggjur af þeirri röskun sem kann að hljótast af annarri bylgju veirunnar verði hún að veruleika, að því er segir í annarri frétt Reuters.