Eyðilegging hins náttúrulega heims er orsök þess að heimsfaraldrarar á borð við þann sem heimsbyggðin glímir nú við geisa. Jarðarbúar hafa hunsað þessa staðreynd í áratugi.
Um þetta eru Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóða heilbrigðismálastofnunin og Alþjóðlegi náttúruverndarsjóðurinn, WWF, sammála. Sérfræðingar þeirra birtu í síðustu viku sameiginlega grein þar sem farið er yfir áhyggjur þeirra.
Ólögleg og ósjálfbær viðskipti með villt dýr sem og skógareyðing og almenn hnignun vistkerfa eru þau helstu öfl sem auka hættuna á því að sjúkdómar fari úr dýrum í menn að mati þessara þriggja stofnana og samtaka. Þau segja kórónuveiruna aðvörun sem beri að nýta til að bæta fyrir rof sem orðið hefur milli mannsins og náttúrunnar. Í kjölfar COVID-19 þurfi að fara grænar og heilbrigðar leiðir að bata – sérstaklega með því að breyta skaðlegum landbúnaði og snúa frá ósjálfbæru mataræði.
Þetta kemur fram í sameiginlegri grein sérfræðinga stofnananna og samtakanna sem birt var í breska dagblaðinu The Guardian í síðustu viku.
Í nýrri skýrslu Alþjóðlega náttúruverndarsjóðsins kemur fram að hættan á nýjum smitsjúkdómi sem berist frá dýrum í menn sé meiri nú en nokkru sinni. Slíkt ógnar heilbrigði fólks og öryggi sem og hagkerfum eins og reynslan af COVID-19 hefur þegar sýnt.
Sérfræðingar samtakanna segja í skýrslunni að auk eyðileggingar hins náttúrulega heims eigi stórtækur landbúnaður og framleiðsla dýra til manneldis stóran þátt. Þá hvetja samtökin stjórnvöld landa jarðar til að byggja upp sjálfbærar keðjur í matvælaframleiðslu, allt frá frumframleiðslu á disk neytenda.
Nokkrir af fremstu sérfræðingum heims í líffræðilegum fjölbreytileika hafa varað við hinu sama. Þeir segja að breyta verði út af braut eyðileggingar þegar í stað – annars sé voðinn vís. Nú í júní sendi umhverfismálastjóri Sameinuðu þjóðanna, sem er hagfræðingur, út neyðarkall og benti á nútíma efnahagsstarfsemi tæki ekki tillit til þess að auður mannfólks byggir á heilbrigði náttúrunnar.
„Við höfum séð marga sjúkdóma koma fram á sjónarsviðið síðustu ár, svo sem zika, AIDS, SARS og ebólu og þeir hafa allir átt upptök sín í dýrum sem eru undir gríðarlegu, umhverfislegu álagi,“ skrifa Elizabeth Maruma Mrema, sem fer fyrir líffræðilegum fjölbreytileika hjá Sameinuðu þjóðunum, Maria Neira, forstöðumaður umhverfis- og heilbrigðismála hjá WHO og Marco Lambertini, framkvæmdastjóri WWF International. Þau segja að kórónuveiran sé til merkis um „okkar hættulega og óstöðuga samband sem við eigum við náttúruna“ og að faraldurinn sýni hvernig okkar eigin skaðlega hegðun gagnvart náttúrunni setur heilsu okkar í hættu.
Benda þau svo á að því miður sé það svo að þó að faraldurinn hafi gefið okkur enn eina ástæðuna til að vernda náttúruna sé hið gagnstæða þegar farið að eiga sér stað. „Frá Mekong-fljóti til Amazon og Madagaskar hafa borist ógnvekjandi fréttir af auknum veiðiþjófnaði, ólöglegu skógarhöggi og skógareldum á sama tíma og mörg lönd eru að slaka á umhverfiskröfum og skera niður fjárveitingar til náttúruverndar. Þetta er allt að gerast á tímum þegar við þurfum mest á [náttúruvernd] að halda.“
Benda þau einnig á að þegar hafi verið sýnt fram á að skammtímahugsun í sparnaðarskyni, með eftirgjöf í umhverfis-, heilbrigðis- og velferðarmálum, sé blekkingarleikur. „Reikninginn þarf að borga margfalt til baka síðar.“