Stjórnvöld gerðu engan nýjan skriflegan samning við Íslenska erfðagreiningu (ÍE) vegna aðkomu fyrirtækisins að skimunum fyrir COVID-19 á landamærastöðvum, heldur fer útfærsla á skimunum fram samkvæmt munnlegu samkomulagi Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis við fyrirtækið og fyrri skriflegum samningum sem höfðu verið gerðir um aðkomu ÍE að skimunum fyrir COVID-19 hér innanlands.
„Gert er ráð fyrir því að ÍE muni senda reikning fyrir efniskostnaði og launakostnaði,“ segir í svari sóttvarnalæknis við fyrirspurn Kjarnans, þar sem óskað var eftir skriflegum samningi að aðkomu ÍE að skimunum ferðafólks, ef slíkur hefði verið gerður, eða öllum upplýsingum sem framreiðanlegar væru um munnlegt samkomulag sem hefði verið gert um sama efni.
Kári Stefánsson forstjóri ÍE hafði áður sagt að hann reiknaði með því að sá kostnaður sem fyrirtækið tæki á sig vegna aðkomu sinnar að landamæraskimunum yrði greiddur af ríkinu. Fyrirtækið sér um að skima þau sýni sem tekin eru á Keflavíkurflugvelli, sem hafa verið hátt í þúsund á dag undanfarna daga.
Sóttvarnalæknir segir í svari sínu við fyrirspurninni að aðkoma ÍE að greiningum á sýnum byggi á vinnslusamningi sóttvarnalæknis við Landspítalann frá árinu 2015 annars vegar og hins vegar á vinnslusamningi ÍE við við sýkla- og veirufræðideild Landspítalans frá 12. mars síðastliðnum.
Hann bætir við að þessir vinnslusamningar byggi á sóttvarnalögum, persónuverndarlögum og reglum Persónuverndar um öryggi persónuupplýsinga. Þá sé kveðið á um það í reglugerð heilbrigðisráðherra að einungis megi rannsaka sýni sem aflað er með skimun á landamærastöðvum með tilliti til kórónuveirunnar og þeim skuli eytt að því búnu.
Íslenskri erfðagreiningu ekki veitt neitt sérleyfi
Í svarinu segir einnig að stjórnvöld hafi ekki heitið ÍE neinum sérkjörum, sérleyfi eða sérstökum aðgangi að gögnum sem safnast við skimunina, heldur séu gögnin á forræði sóttvarnalæknis samkvæmt sóttvarnalögum og öllum aðgengileg til rannsókna, samkvæmt verklagsreglum embættis landlæknis.
Því er svo bætt við að ÍE hafi samhliða vinnu við skimanir fyrir COVID-19 ákveðið að stunda rannsóknarvinnu á sjúkdómnum og hefði sótt um tilskilin leyfi til þar til bærra aðila vegna þeirra vinnu.
Fyrirspurnin sem Kjarninn kom til sóttvarnalæknis var samhljóða fyrirspurn Hauks Más Helgasonar blaðamanns og rithöfunds, sem hann sendi á forsætisráðuneytið 8. júní, og sneri að aðkomu Íslenskrar erfðagreiningar að framkvæmd landamæraskimana.