Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, sem samanstendur af fulltrúum Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks, segir að frumkvæðisathugun nefndarinnar á hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í ljósi stöðu hans gagnvart útgerðarfyrirtækinu Samherja, hafi að einu og öllu verið í samræmi við hlutverk nefndarinnar og verklag allt verið eðlilegt. Allar ásakanir um annað byggi á öðru en staðreyndum.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem meirihlutinn sendi frá sér í dag. Afar óvenjulegt er að meirihluti nefndar sendi frá sér slíka tilkynningu. Undir tilkynninguna skrifa Óli Björn Kárason og Brynjar Níelsson frá Sjálfstæðisflokki, Þórunn Egilsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir frá Framsóknarflokki og Kolbeinn Óttarsson Proppé frá Vinstri grænum.
Tilefnið er afsögn Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, sem formanns nefndarinnar. Hún sagði af sér formennskunni á mánudag og í ræðu sinni á þingi vegna þessa sagði hún að tilraunir minnihlutans í nefndinni til að sinna því eftirlitshlutverki sem hún á að sinna hefðu orðið „meirihlutanum tilefni til valdníðslu og linnulausra árása.“
Skýrasta dæmið sé hvernig staðið hafi verið í vegi fyrir því að frumkvæðisathugun fari fram á hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, vegna stöðu hans gagnvart Samherja en meirihluti nefndarinnar, skipaður stjórnarþingmönnum og þingmanni Miðflokksins, lagði til að henni yrði hætt fyrir viku síðan. „Með þessu er meirihlutinn að setja hættulegt fordæmi, veikja eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu,“ sagði Þórhildur Sunna.
Í fullu samræmi við þingsköp
Í tilkynningu meirihlutans, sem lesa má í heild sinni hér að neðan, er málsmeðferð á frumkvæðisathugun á hæfi Kristjáns Þórs rakin ítarlega. Þar kemur fram að 15. júní síðastliðinn, sama dag og Þórhildur Sunna sagði af sér, hefði forseti Alþingis sent erindi þar sem fram kom að afgreiðsla nefndarinnar þann 5. júní á frumkvæðisathugun, þegar ákveðið var að láta hana niður falla, hefði verið í fullu samræmi við þingsköp. „Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur meðal annars það hlutverk að kanna ákvarðanir einstaka ráðherra og verklag þeirra að eigin frumkvæði. Þannig sé tryggt að löggjafinn hafi eftirlit með framkvæmdavaldinu. Þá er almenningi einnig gert kleift að fylgjast vel með slíkum athugunum bæði með opnum fundum þar sem ráðherra situr fyrir svörum eða með aðgengi að fundargerðum og bókunum um málið.
Niðurstaðan er svo gerð öllum ljós að lokinni rannsókn sem byggist á gestakomum sérfræðinga í málinu, upplýsingabeiðnum frá ráðuneytum, opnu samtali við ráðherra og öðru sem hjálpar þingmönnum að komast að upplýstri niðurstöðu.“
Meirihlutinn telur að frumkvæðisathugun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á hæfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi að einu og öllu verið í samræmi við þetta hlutverk nefndarinnar og verklag allt verið eðlilegt. „Allar ásakanir um annað byggja á öðru en staðreyndum.“