Bílaleigubílum í umferð hefur fækkað um 46 prósent á milli ára, í upphafi júní voru þeir alls 13.143 talsins en í upphafi júní í fyrra voru þeir 24.374 talsins. Þetta kemur fram í svari Samgöngustofu við fyrirspurn Kjarnans.
Í kjölfar kórónuveirufaraldursins hafa bílaleigur landsins þurft að grípa til ýmissa hagræðingaraðgerða. Það liggur beint við að leigurnar bregðist við minnkandi eftirspurn með því að losa sig við bíla sem annars myndu standa óhreyfðir. Leigurnar hafa því selt bíla í stórum stíl á síðustu mánuðum.
Fimm þúsund færri bílar í flotanum í ár
Á síðustu tólf mánuðum hafa bílaleigurnar selt tæplega fimm þúsund fleiri bíla heldur en þær hafa keypt. Þetta sést í tölum yfir bílaleigubíla á skrá frá Samgöngustofu. Í upphafi júní í fyrra voru alls 25.437 bílaleigubílar á skrá en nú eru þeir 20.776. Floti bílaleigubíla hefur því skroppið saman um tæp 20 prósent.
En minnkandi umsvif bílaleiga sjást kannski best í fjölda bíla sem ekki eru í umferð en fjöldi þeirra hefur rúmlega sjöfaldast á milli ára. Í júní í fyrra voru 1.063 bílar úr umferð en í ár er fjöldi þeirra alls 7.633. Þegar bílar eru teknir úr umferð er númeraplötum þeirra skilað inn og leigurnar spara sér því kostnað í formi bifreiðagjalda og greiðslna til tryggingafélaga. Þannig minnka leigurnar kostnað sem hlýst af óhreyfðum bílum.
Gerir ráð fyrir 75 prósenta samdrætti
Bílaleigurnar hafa þurft að grípa til fleiri aðgerða til þess að halda sjó. „Við náttúrlega nýttum okkur úrræði stjórnvalda, fyrst hlutabótaleiðina og svo sögðum við upp fólki. Það er kannski það helsta,“ segir Hjálmar Pétursson, forstjóri ALP, um það hvernig fyrirtækið tók á þeim skakkaföllum í rekstri sem fylgdu kórónuveirufaraldrinum, en ALP á og rekur Avis og Budget bílaleigurnar.
„Við erum náttúrlega búin að skera niður í starfsmönnum og fækka bílum eins og við getum. Höfum skorið niður þann kostnað sem hægt er og þetta verður alveg hræðilegt ár sama hvernig sumarið fer úr þessu. Það eru komnir þrír tekjulausir mánuðir með engum túristum,“ segir Hjálmar um horfurnar en hann gerir ráð fyrir um 75 prósenta samdrætti í útleigu í ár.
Töluverð fjölgun í langtímaleigu Íslendinga
Að hans sögn hafa Íslendingar ekki getað stoppað í gatið sem erlendu ferðamennirnir skildu eftir. „Við fórum strax í það að bjóða bíla á innanlandsmarkað í langtímaleigu og skemmri leigu og við höfum náð fínum árangri þar, Íslendingar tóku vel við því. En það er ekkert fyrir ferðalög, heldur bara í sölu og langtímaleigu,“ segir Hjálmar sem telur að aukningin í langtímaleigu til Íslendinga nemi um 50 prósentum á milli ára.
Staðan er svipuð hjá Höldur sem rekur Bílaleigu Akureyrar og Europcar. „Við höfum bæði verið að reyna að draga úr bílakaupum fyrir það fyrsta og auka bílasölu. Það er verkefni númer eitt, tvö, og þrjú að minnka flotann og fækka bílum. Og svo eru alls konar önnur mál eins hjá öllum öðrum fyrirtækjum. Frysting á afborgunum og lenging lána og eitthvað slíkt, þetta hefðbundna bara. Og við nýttum okkur hlutabótaleiðina í apríl og maí en gerum það reyndar ekki lengur. Fækkað fólki og lækkað laun og allar þær aðgerðir sem ég held að flest ef ekki öll ferðaþjónustufyrirtæki hafa verið nauðbeygð í,“ segir Steingrímur Birgisson, forstjóri Höldurs, um aðgerðir fyrirtækisins.
Fagnar hverri bókun
Steingrímur gerir ráð fyrir svipuðum samdrætti og Hjálmar. „Í okkar áætlunum erum við að gera ráð fyrir 70 til 80 prósent. Þannig að ég held að það breytist ekkert þó að það sé búið að opna landið og það séu einhverjar bókanir að koma og allt það,“ segir Steingrímur sem fagnar hverri bókun.
„Síðan er maður bara farinn að horfa á 2021. Ég held að 2020 verði mjög slæmt ár fyrir alla sem eru í ferðaþjónustu. Það er jákvætt að fá einhverjar bókanir inn núna og vonandi fer þetta hægt og rólega að tikka inn. Maður vonar bara að Íslendingar og þeir sem sækja okkur heim passi enn þá upp á sóttvarnarmál. Maður er náttúrlega skíthræddur um að þetta blossi upp aftur,“ segir Steingrímur að lokum.