Þegar fyrstu tölur í forsetakosningunum höfðu verið birtar úr fjórum kjördæmum í kvöld var Guðni Th. Jóhannesson með mikla yfirburði eða 90,3 prósent atkvæða. Guðmundur Franklín Jónsson var þá með 9,7 prósent atkvæða. Er þetta í takti við nýjustu skoðanakannanir. Enn áttu þá eftir að berast fyrstu tölur úr Reykjavíkurkjördæmunum báðum.
Yfir fimmtíu þúsund manns kusu utan kjörfundar.
Guðni sagðist í samtali við RÚV eftir að fyrstu tölur voru komnar úr tveimur kjördæmum að hann var þakklátur fyrir stuðninginn. Hann vildi þó bíða með „fullnaðardóma“ um niðurstöður kosninganna á þeim tímapunkti.
Eliza Reid, eiginkona Guðna, var einnig til viðtals í RÚV og var spurð hvernig henni litist á fjögur ár til viðbótar á Bessastöðum. „Bara mjög vel,“ sagði hún. „Ég hlakka mikið til framtíðarinnar og er mjög stolt af Guðna, að sjálfsögðu.“
Sigríður Hagalín Björnsdóttir fréttamaður RÚV spurði Elizu því næst um þá umræðu sem skapaðist um að hún, maki forseta, væri útivinnandi. „Mér finnst þetta ágætis umræða til að taka. Mér fannst alveg sjálfsagt að ég haldi áfram í minni vinnu eins og ég var alltaf að gera þó að maðurinn minn fengi nýja vinnu. Og ég held að meirihluti þjóðarinnar sé sammála því.“
Eliza sagði að þau Guðni reyndu að halda fjölskyldulífinu með börnunum eins venjulegu á Bessastöðum og hægt er. Við vorum til dæmis að ganga upp á Esjuna í dag og reynum að gera margt saman sem fjölskylda.“
Guðni sagði margt sem hægt væri að gera betur í samfélaginu, „og margt sem við verðum að gera betur og getum svo hæglega gert betur. En eitt af því sem við getum verið stolt af hér á Íslandi er sú staðreynd að sá eða sú sem gegnir embætti forseta Íslands getur um frjáls höfuð strokið. Farið með sinni fjölskyldu á íþróttaviðburði, í leikhús, upp á Esjuna, án þess að það kalli á einhverjar meiriháttar framkvæmdir og undirbúning. Og við eigum að halda í þetta. Við eigum að halda í þetta frjálsa og opna samfélag okkar – þetta samfélag frelsis og jafnréttis, víðsýni og umburðarlyndis. Þar sem forsetinn getur gengið um meðal fólksins ólíkt því sem gengur og gerist víða úti í heimi.“
Guðmundur Franklín Jónsson sagði í samtali við RÚV að hann væri ánægður með fyrstu tölur og sagði að hvert atkvæði sem hann fengi væri atkvæði gegn spillingu. Spurður hvort að hann hafi á einhverjum tímapunkti talið sig hafa raunhæfa möguleika á að verða forseti sagði hann að allt væri hægt í heiminum.