Milli 360-370 manns þurfa að fara í sóttkví vegna þriggja kórónuveirusmita sem greinst hafa hér á landi síðustu daga. Meðal annars er um að ræða fótboltalið og gesti í veislum sem áttu í samneyti við hina smituðu.
Þetta staðfestir Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður smitrakningarteymisins og aðstoðaryfirlögregluþjónn, við Kjarnann.
Hann segir að í dag hafi verið unnið að því „á fullu“ að hafa samband við fólk sem þarf að fara í sóttkví.
Ævar sagði í viðtali við Kjarnann í gær að ekki væri hægt að fullyrða að knattspyrnukona í Breiðabliki hefði smitast erlendis og borið smit hingað. Mögulega hefði hún smitast hér á landi. Hún kom til landsins frá Bandaríkjunum þann 17. júní og reyndist neikvæð í landamæraskimun. Í kjölfarið lék hún tvo fótboltaleiki og fór í útskriftarveislu.
Þann 23. júní fór hún aftur í skimun, eftir að hafa fengið upplýsingar um að herbergisfélagi hennar ytra hefði greinst með veiruna. Þá var staðfest að hún var sýkt af veirunni.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, sagði í fréttum RÚV í gær að uppruni hópsmitsins, kunni að vera allt annar en talið var. Starfsfólk Íslenskrar erfðagreiningar vinnur nú að því að komast að hinu sanna.
Samkvæmt upplýsingum sem birtar voru á covid.is í dag voru í gær ellefu virk smit hér á landi.