Tugir stórfyrirtækja hafa ákveðið að stöðva auglýsingakaup sín á Instagram og Facebook vegna þess hve illa Facebook tekur á hatursorðræðu og dreifingu falsfrétta og misvísandi upplýsinga á miðlum sínum. Vegna þessa hefur hlutabréfaverð í Facebook tekið snarpa dýfu.
Samkvæmt frétt The Business Insider var fyrsta stórfyrirtækið til að ríða á vaðið The North Face. Sniðganga fyrirtækisins var tilkynnt á Twitter síðu þess þann 19. júní og í kjölfarið hafa tugir fyrirtækja ákveðið að fara sömu leið.
We’re in. We’re Out @Facebook #StopHateForProfit
— The North Face (@thenorthface) June 19, 2020
Learn more: https://t.co/uAT7u7mjBG https://t.co/jVxTIH5ThQ
Sniðgangan að mestu bundin við Bandaríkjamarkað
Herferðinni var hrundið af stað um miðjan júní síðastliðinn, í kjölfar drápsins á George Floyd, undir myllumerkinu #stophateforprofit. Nú vilja forsvarsmenn herferðarinnar færa út kvíarnar og ná til fyrirtækja utan Bandaríkjanna, að því er fram kemur í frétt Reuters. Gangi það eftir er ljóst að herferðin mun hafa töluverð áhrif á tekjur Facebook til skamms tíma.
Fyrirtækið Unilver hefur til dæmis ákveðið að stöðva auglýsingakaup fyrir Bandaríkjamarkað á Facebook út árið. Áætlað er að fyrirtækið verji um 250 milljónum dala í auglýsingakaup á Facebook en af þeirri upphæð fara um tíu prósent í að kaupa auglýsingar fyrir Bandaríkjamarkað. Það þykir því nokkuð augljóst að slagkraftur herferðarinnar muni aukast til muna nái hún til annarra landa.
Fjórðungur auglýsingatekna kemur frá stórfyrirtækjum
Í frétt Reuters segir enn fremur að tekjur Facebook af auglýsingasölu nemi um 70 milljörðum dala á ársgrundvelli. Fjórðungur teknanna kemur frá stórfyrirtækjum en mikill meirihluti kemur frá smærri fyrirtækjum. Á þessu stigi málsins mun sniðganga fyrirtækjanna ekki hafa mikil áhrif á tekjur Facebook, enda að mestu leyti bundin við auglýsingakaup í júní og júlí á Bandaríkjamarkaði. Muni sniðgangan vaxa að umfangi getur hún þó farið að hafa töluverð áhrif á tekjurnar.
Umfjöllun um sniðgönguna og stefnu fyrirtækisins gagnvart hatursorðræðu hefur engu að síður haft mikil áhrif á hlutabréfaverð Facebook en það féll um rúm átta prósent á föstudag.
Facebook vill reyna að gera betur
Þann sama dag tilkynnti Facebook að fyrirtækið ætlaði að taka hatursorðræðu sem birtist á samfélagsmiðlum félagsins fastari tökum. Það ætlar fyrirtækið að gera með því að merkja færslur sem mögulega geta valdið skaða.
Þessar aðgerðir Facebook mæta hins vegar ekki kröfum hópsins sem stendur að baki Stop Hate for Profit. Hópurinn vill að notendur sem sæta árásum og ofsóknum vegna kynþáttar síns geti notið meiri aðstoðar frá starfsfólki Facebook og að upplýsingar um umfang hatursorðræðu á Facebook verði aðgengilegri. Þá hefur hópurinn krafist þess að auglýsendur sem lenda í því að auglýsingar þeirra lenda við hlið efnis sem síðar er eytt eigi kost á því að fá auglýsingakostnað sinn endurgreiddan frá Facebook.
Sniðganga fyrirtækjanna er ekki bundið við samfélagsmiðla Facebook. Til að mynda hefur Starbucks hætt að auglýsa á fleiri samfélagsmiðlum, þar á meðal Twitter. Fjallað hefur verið um agðerðir Twitter til að stemma stigu við dreifingu falskra upplýsinga. Meðal annars hafa Twitter færlsur Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, verið merktar af Twitter, vegna þess að í þeim mátti finna falsað myndefni en einnig vegna hótana um ofbeldi gegn mótmælendum.