„Þetta var eins og að fá kalda vatnsgusu í andlitið,“ segir Arna Rut O. Gunnarsdóttir um augnablikið þegar hún komst að því að fyrir yfir 170 klukkustunda vinnu á gjörgæsludeild Landspítalans – á mesta álagstíma í faraldri COVID-19 – fékk hún greiddar 26.938 krónur í álagsgreiðslu frá ríkinu. Greiðslan er skattskyld og munu því rétt rúmar 16 þúsund krónur koma í hlut Örnu.
Hún segist hafa horft lengi á töluna og hugsað: Hvað er þetta eiginlega? Sérstaklega í ljósi þess að hún hafði heyrt að starfsfólk Landspítalans, sem hefði komið beint að þjónustu við COVID-sjúklinga, gæti fengið allt að 250 þúsund krónur í umbun vegna álagsins.
En Arna er ekki fastur starfsmaður. Og hún innti sína vinnu - í rúmlega 170 klukkustundir – af hendi á nokkrum vikum í apríl þegar álagið var gríðarlegt á gjörgæsludeildinni. Þangað kom hún til starfa í gegnum bakvarðasveit heilbrigðisstarfsfólks – sveitar sem sett var saman til að heilbrigðisstofnanir landsins færu ekki á hliðina út af álagi. Sveitar sem hlaut mikið lof fyrir sín störf.
Arna er menntuð í svæfingarhjúkrun. Hún vann í mörg ár á sjúkrahúsinu á Akureyri en skipti um starfsvettvang árið 2018. Vegna sérþekkingar hennar var henni tekið fagnandi er hún bauð fram krafta sína í bakvarðasveitina. Hún er búsett á Akureyri ásamt fjölskyldu sinni; eiginmanni og fjórum sonum.
Hún taldi það ekki eftir sér að fljúga suður og taka tíu vaktir á gjörgæsludeildinni á níu dögum. Fara svo í stutt vaktahlé til Akureyrar en svo aftur suður um páskana til að sinna alvarlega veikum COVID-sjúklingum. „Þegar ég fór heim aftur eftir páskana þá var ástandið á deildinni farið að róast,“ rifjar Arna upp. „Spítalinn ætlaði að hringja ef að það yrði þörf á mér aftur en það kom ekki til þess.“
Í miðjum faraldrinum var þegar farið að ræða um það að greiða heilbrigðisstarfsfólki sérstaka umbun vegna álagsins. Einn milljarður króna var svo settur inn í fjáraukalög og átti hann að greiða því starfsfólki sem stóð í framlínunni í baráttunni við faraldurinn. Ákveðið var að 750 milljónir myndu renna til starfsmanna Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri en afgangurinn til heilsugæslunnar og annarra heilbrigðisstofnana í landinu.
Miðað við viðveru starfsmanna í mars og apríl
Síðar tilkynnti Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, að allt starfsfólk sjúkrahússins fengi greitt vegna álagsins en mismikið eftir því á hvaða deildum það vinnur. Og á hvaða tíma. Þannig var ákveðið að upphæðin færi eftir viðveru starfsmanns í mars og apríl.
„Ég heyrði þessar fréttir og hugsaði svo sem ekkert mikið út í þetta. Ég vissi að hvað hver og einn myndi fá yrði útfærsluatriði,“ segir Arna. „En svo fór ég að sjá umræðu á Facebook í gærkvöldi frá bakvörðum sem fannst upphæðin sem þeir fengu skrítin.“
Einn bakvörðurinn, kona sem hafði komið fyrr úr fæðingarorlofi til aðstoðar á gjörgæsludeildinni, fékk svo dæmi sé tekið 6.775 krónur í umbun. Eftir skatt fær hún 1.094 krónur í sinn hlut.
Fleiri svipaðar sögur fóru að heyrast.
„Þá fór ég að kíkja hvort ég hefði fengið sendan launaseðil. Hann var kominn og þar stendur einfaldlega: Launauppbót A: 26.938 krónur. Útborgað: 16.100,“ segir Arna.
Hún segist hafa farið að skoða málið og telur skýringuna á þessum lágu greiðslum felast í því að umbunin er reiknuð út frá föstu starfshlutfalli í mars og apríl, en bakverðir eru fæstir með fastráðningu heldur var gert við þá tímavinnusamningur. Þannig virðist launauppbótin ekki endurspegla vinnuframlag starfsmanna með neinum hætti, heldur eingöngu ráðningasamband þeirra til Landspítalans þessa tvo mánuði.
Sumir starfsmenn í hlutastarfi sem ákváðu að vinna meira þegar faraldurinn stóð sem hæst til að létta undir með samstarfsfólki, virðast ekki fá það metið inn í launauppbótina og Arna og fleiri bakverðir, sem komu margir hverjir til aðstoðar í apríl – er flestir lágu inni á sjúkrahúsum, þar af margir í öndunarvél – fengu þá mun lægri upphæð. Þrátt fyrir að hafa skilað yfir 170 vinnustundum á stuttu tímabili.
„Ég tók allan mesta álagstímann,“ segir Arna. „Og niðurstaðan er þessi upphæð.“
Sonurinn fékk fullt af gjafabréfum
Hún segist alls ekki vilja vera vanþakklát. En henni finnst upphæðin engu að síður vanvirðing við sig og sitt framlag. „Mér finnst þetta niðurlægjandi. Ég gaf mig alla í þetta, gekk mjög nærri sjálfri mér í vinnu við þessar ótrúlega erfiðu aðstæður. Þetta endurspeglar engan veginn þá áhættu og það álag sem starfsmenn unnu í og þar með ekki framlag hvers og eins. Ég vann ígildi mánaðarvinnu í mesta álaginu en fæ samt ekki helminginn af upphæðinni. Þetta er ósanngjarnt gagnvart okkur sem komum inn á þessum tímapunkti og kláruðum okkur hreinlega í vinnu á nokkrum vikum.“
Sextán ára sonur Örnu fór að vinna fyrir Nettó á Akureyri í samkomubanninu. „Hann kom heim um daginn með umslag sem í var fjöldi gjafabréfa, fyrir hótelgistingum og margt fleira. Þannig þakkaði Nettó starfsfólki sínu fyrir vel unnin störf í COVID. Sem er auðvitað til mikillar fyrirmyndar. Ég hefði verið þakklátari ef Landspítalinn hefði sent mér gjafabréf í hótelgistingu eina nótt að andvirði 26 þúsund króna.“
Myndi aftur aðstoða
Nýverið fékk Arna símtal frá Landspítalanum þar sem hún var spurð hvort hún gæti verið á útkallslista yfir þá bakverði sem yrðu fyrst kallaðir til ef önnur bylgja faraldursins gangi yfir. „Ég sagði eins og var að það væri mikið að gera í vinnunni hjá mér en að ég myndi skoða þetta. Ég vona að næsta bylgja, komi hún upp, verði ekki eins alvarleg og sú fyrsta. En ef virkilega þyrfti þá myndi ég örugglega fara og aðstoða. En ég myndi aldrei taka tíu daga tarnir aftur eða 12-16 tíma vinnudaga.“