„Við erum búin að ná utan um þetta og koma að við teljum öllum í sóttkví sem þurfa að fara í sóttkví,“ segir Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður smitrakningarteymis almannavarna og aðstoðaryfirlögregluþjónn. Fimm smit af kórónuveirunni hafa greinst innanlands síðustu daga og eru þau öll talin tengjast konu sem kom með flugi frá Bandaríkjunum 17. júní. Núna eru 436 manns í sóttkví og að sögn Ævars er það nær allt fólk sem tengist smitunum fimm.
Hópurinn þarf að vera í sóttkví í tvær vikur frá þeim tíma sem það var útsett fyrir smiti. „Allur vafi er túlkaður örygginu og þar með sóttkvínni í hag,“ segir Ævar spurður hvort einhverjir muni komast úr sóttkví fyrr en aðrir.
Í sóttkví eru meðal annars gestir í útskriftarveislum sem fram fóru fyrir viku, nokkrir starfsmenn atvinnuvegaráðuneytisins og fjögur fótboltalið.
Ævar segir að þeir sem séu í sóttkví verði að fylgja nákvæmlega sömu reglum og giltu í vetur og nálgast má hér. Aðspurður segir hann að fólk geti vel farið í sumarbústaðinn sinn í sóttkvínni – að því gefnu að það fari að öllum sóttvarnarreglum. Þá ber fólki í sóttkví að láta rakningarteymið eða sína heilsugæslustöð vita ef það ætlar að skipta um dvalarstað. „Það þarf að gera með þeirra eigið öryggi í huga svo að viðkomandi heilbrigðisumdæmi viti af þeim.“
Á heildina litið segir Ævar smitrakninguna í kringum hópsmitið hafa gengið vel. „Eðlilega hafa komið upp nokkur mál sem hafa verið flóknari úrlausnar en önnur.“ Skýringin felist meðal annars í því að starfsmenn smitrakningarteymisins sé orðið „vant og hokið af reynslu í smitrakningum, að ná til fólks og tala við það.“
Hann minnir á að verkefnið sé samvinnuverkefni margra, m.a. við þá sem hafa smitast og einnig þá sem þurfa að fara í sóttkví. Þá segir hann mikið og gott samstarf hafi verið við íþróttafélögin í þessari rakningu enda kom smitið upp hjá leikmanni.
Ef fólk sem er í sóttkví fer að finna fyrir sjúkdómseinkennum á það að láta sína heilsugæslustöð vita um leið.